Hlutabréfaverð Iceland Seafood International lækkaði um 3% í örviðskiptum í dag og var dagslokagengi félagsins 4,76 krónur. Gengi ISI hefur aldrei verið lægra eftir rúmlega 16% lækkun á árinu.
Viðsnúningur hefur verið á gengi félagsins sem skilaði hagnaði í fyrsta sinn í meira en ár á fjórða ársfjórðungi 2023. Staða félagsins hélt áfram að vænkast á fyrsta ársfjórðungi en félagið skilaði þó tapi á fyrra árshelmingi.
Tapið var þó töluvert minna í ár en í fyrra en félagið tapaði 30 þúsund evrum, eða um 109 milljónum króna, eftir skatta á fyrri árshelmingi. Til samanburðar tapaði félagið 15,3 milljónum evra á sama tímabili í fyrra sem litaðist mjög af bresku dótturfélagi sem var selt á síðasta ári.
Aðlöguð afkoma félagsins fyrir skatta (e. normalised pre-tax profit/loss, NPBT) á fyrri árshelmingi var jákvæð um 1,1 milljón evra.
Ægir Páll Friðbertsson, forstjóri ISI, sagði í uppgjörinu að áfram væri óvissa í rekstrarumhverfi félagsins og að stjórnendur gerðu ráð fyrir að svo verði áfram.
Hátt vaxtastig geri mörgum rekstraraðilum í iðnaðinum erfitt fyrir og almennt verði rekstraraðstæður krefjandi við viðvarandi verðbólgu.
Von er á uppgjöri þriðja ársfjórðungs um miðjan næsta mánuð.
Play leiddi hækkanir á aðalmarkaði
Hlutabréfaverð flugfélagsins Play leiddi hækkanir á aðalmarkaði í dag er gengi flugfélagsins fór upp um 3% í 16 milljón króna viðskiptum.
Flugfélagið kynnti í síðustu viku áætlanir sínar um „grundvallarbreytingu“ á viðskiptalíkani félagsins frá og með miðju næsta ári en breytingin hefur farið misvel í fjárfesta. Gengi félagsins hefur lækkað um 13% síðastliðna fimm viðskiptadaga þrátt fyrir hækkanir dagsins í dag.
Leiða má líkur að því að miklarlækkanir á olíuverði séu að hafa jákvæð áhrif á hlutabréfaverð félagsins í dag en verðið á Brent-hráolíu, sem er meðal annars notuð í eldsneyti, hefur lækkað um tæp 7% í vikunni. Tunnan af Brent-hráolíu stóð í 71 dölum við lokun markaða hérlendis í dag.
Hlutabréfaverð Símans hækkaði um tæp 2% í um 185 milljón króna veltu í viðskiptum dagsins og þá fór gengi fjárfestingafélagsins Skeljar einnig upp um tæp 2% í 20 milljón króna veltu.
Hlutabréfaverð Heima hélt áfram að hækka í dag en gengi fasteignafélagsins hefur nú hækkað um 33% síðastliðna þrjá mánuði. Dagslokagengi Heima var 33 krónur eftir rúma 1% hækkun í dag.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,03% og var heildarvelta á markaði 5,6 milljarðar.