Hluta­bréfa­verð Iceland Sea­food International lækkaði um 3% í ör­við­skiptum í dag og var dagsloka­gengi fé­lagsins 4,76 krónur. Gengi ISI hefur aldrei verið lægra eftir rúm­lega 16% lækkun á árinu.

Við­snúningur hefur verið á gengi fé­lagsins sem skilaði hagnaði í fyrsta sinn í meira en ár á fjórða árs­fjórðungi 2023. Staða fé­lagsins hélt á­fram að vænkast á fyrsta árs­fjórðungi en fé­lagið skilaði þó tapi á fyrra árs­helmingi.

Tapið var þó tölu­vert minna í ár en í fyrra en fé­lagið tapaði 30 þúsund evrum, eða um 109 milljónum króna, eftir skatta á fyrri árs­helmingi. Til saman­burðar tapaði fé­lagið 15,3 milljónum evra á sama tíma­bili í fyrra sem litaðist mjög af bresku dóttur­fé­lagi sem var selt á síðasta ári.

Að­löguð af­koma fé­lagsins fyrir skatta (e. normal­ised pre-tax profit/loss, NPBT) á fyrri árs­helmingi var já­kvæð um 1,1 milljón evra.

Ægir Páll Frið­berts­son, for­stjóri ISI, sagði í upp­gjörinu að á­fram væri ó­vissa í rekstrar­um­hverfi fé­lagsins og að stjórn­endur gerðu ráð fyrir að svo verði á­fram.

Hátt vaxta­stig geri mörgum rekstrar­aðilum í iðnaðinum erfitt fyrir og al­mennt verði rekstrar­að­stæður krefjandi við við­varandi verð­bólgu.

Von er á upp­gjöri þriðja árs­fjórðungs um miðjan næsta mánuð.

Play leiddi hækkanir á aðalmarkaði

Hluta­bréfa­verð flug­fé­lagsins Play leiddi hækkanir á aðal­markaði í dag er gengi flug­fé­lagsins fór upp um 3% í 16 milljón króna við­skiptum.

Flug­fé­lagið kynnti í síðustu viku á­ætlanir sínar um „grund­vallar­breytingu“ á við­skipta­líkani fé­lagsins frá og með miðju næsta ári en breytingin hefur farið mis­vel í fjár­festa. Gengi fé­lagsins hefur lækkað um 13% síðast­liðna fimm við­skipta­daga þrátt fyrir hækkanir dagsins í dag.

Leiða má líkur að því að miklarlækkanir á olíu­verði séu að hafa já­kvæð á­hrif á hluta­bréfa­verð fé­lagsins í dag en verðið á Brent-hrá­olíu, sem er meðal annars notuð í elds­neyti, hefur lækkað um tæp 7% í vikunni. Tunnan af Brent-hrá­olíu stóð í 71 dölum við lokun markaða hér­lendis í dag.

Hluta­bréfa­verð Símans hækkaði um tæp 2% í um 185 milljón króna veltu í við­skiptum dagsins og þá fór gengi fjár­festinga­fé­lagsins Skeljar einnig upp um tæp 2% í 20 milljón króna veltu.

Hluta­bréfa­verð Heima hélt á­fram að hækka í dag en gengi fast­eigna­fé­lagsins hefur nú hækkað um 33% síðast­liðna þrjá mánuði. Dagsloka­gengi Heima var 33 krónur eftir rúma 1% hækkun í dag.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 0,03% og var heildar­velta á markaði 5,6 milljarðar.