Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur eiga mesta möguleika á að bæta við sig þingmanni komi til uppkosningar í Norðvesturkjördæmi. Píratar og Framsóknarflokkur eru aftur á móti þeir flokkar sem slík kosning gæti helst komið niður á. Þetta leiðir skoðun Viðskiptablaðsins á niðurstöðum kosninganna í ljós.

Sem kunnugt er hefur mikið verið rætt og ritað um framkvæmd talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi. Ákveðið var að endurtelja atkvæði kjördæmisins eftir að í ljós kom að samkvæmt lokatölur var afar mjótt á mununum á því hvar Viðreisn tæki sinn fyrsta jöfnunarþingmann. Niðurstaða þar hefði síðan áhrif á hvaða frambjóðendur yrðu inni sem jöfnunarþingmenn og hverjir ekki.

Við endurtalningu kom í ljós að atkvæði til Viðreisnar höfðu verið oftalin og sendi það jöfnunarmennina á skauta, það er fimm sem höfðu verið þingmenn duttu út og fimm nýir komu inn í staðinn. Síðan þá hefur komið í ljós að varsla kjörgagna milli talninga var ekki eins og best verður á kosið.

Framkvæmd kosningar í kjördæminu hefur bæði verið kærð til lögreglu og til dómsmálaráðuneytisins. Kæra til lögreglu gæti mögulega leitt af sér refsimál en hefði engin áhrif á gildi kosningarinnar. Það er kjörbréfanefndar Alþingis, líkt og fjallað var um í Viðskiptablaði vikunnar, að úrskurða um gildi kosningarinnar.

Uppkosning aldrei farið fram

Aldrei í lýðveldissögunni hefur þingkosning, hvorki í einu kjördæmi né landinu í heild, verið úrskurðuð ólögmæt. Komi til þess þarf að fara fram svokölluð uppkosning innan mánaðar frá því að til hennar er boðað. Í henni yrðu framboð og frambjóðendur hinir sömu og í fyrstu atrennu.

Kjósendur á kjörskrá í kjördæminu voru 21.548 en 82% þeirra mættu í fyrstu atrennu. Sjö kjördæmisþingmenn eru í kjördæminu og féllu þrír þeirra til Framsóknarflokksins, tveir til Sjálfstæðisflokks og Vinstri græn og Flokkur fólksins fengu einn mann hvert.

Síðasti maður inn var þriðji þingmaður Framsóknarflokksins en þar á eftir var þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Rétt er þó að geta þess að 552 atkvæði vantaði upp á til að hann kæmist inn eða rúm 3% kjósenda kjördæmisins miðað við fyrri kosningu. Fæst atkvæði vantaði upp á að Miðflokkurinn næði inn kjördæmakjörnum manni eða 204 talsins og þá voru 288 atkvæði í að fyrsti maður Samfylkingar næði inn í kjördæminu. Pírata vantaði 403 atkvæði og Viðreisn 421.

Erfitt að bæta við og halda jöfnunarmanni

Viðskiptablaðið ákvað að kíkja á tölurnar og kanna hvaða áhrif slík kosning gæti haft. Við þá könnun verður að setja margvíslega og stóra fyrirvara. Í fyrsta lagi er óvíst hver kjörsókn verður komi til uppkosningar og í öðru lagi er sennilegt að niðurstöður hinna kjördæmanna fimm gætu haft áhrif á það hvar atkvæði kjósenda í Norðvestur lendir.

Í tilraunum Viðskiptablaðsins var gert ráð fyrir því að kjörsókn yrði nokkuð lægri í annarri atrennu heldur en í þeirri fyrri. Þá var einnig gert ráð fyrir því að fylgi flokkanna myndi taka einhverjum breytingum en þó ekki slíkum að niðurstöðum fyrri kosningar yrði hent út í hafsauga. Ekki var ráðist í að reikna út hver væru líkleg til að koma inn sem jöfnunarmenn.

Prófanirnar leiddu í ljós, sem var svo sem vitað fyrir enda innbyggt í eðli kosningakerfisins, að í hvert sinn sem flokkur næði inn kjördæmakjörnum manni í Norðvesturkjördæmi þá missti sá flokkur jöfnunarþingmann á móti. Það átti ekki við í tilfelli Flokks fólksins, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins enda fengu þeir flokkar enga jöfnunarþingmenn um liðna helgi.

Aðeins Samfylkingin virtist eiga möguleika á því að ná inn kjördæmakjörnum manni og halda þeim jöfnunarmönnum sem fyrir voru. Næsti jöfnunarþingmaður inn samkvæmt niðurstöðum kosninganna var Sjálfstæðisflokksins en þar vantaði flokkinn 120 atkvæði á landsvísu.

Framsókn líklegust til að tapa

Síðasti jöfnunarmaður inn var Pírata og liggur því fyrir að ef Sjálfstæðisflokkurinn minnkar bilið á Pírata um 120 atkvæði þá mun flokkurinn taka einn þingmann af Pírötum. Næsti jöfnunarmaður var Samfylkingarinnar og þurfti 281 atkvæði í hann. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking virðast því eiga raunhæfa möguleika á að ná inn auka jöfnunarmanni verði kosið aftur. Gæti það bæði gerst með því að sækja á Pírata eða þá þannig að Píratar næðu inn kjördæmakjörnum manni í endurkosningu.

Möguleikar Pírata, Viðreisnar, Miðflokks og Vinstri grænna á að ná inn auka jöfnunarmanni eru takmarkaðir enda þyrftu flokkarnir að auka atkvæðafjölda sinn um 35-60% í Norðvestur svo að slíkt gæti gerst. Við þann gjörning myndu flokkarnir ná inn auka kjördæmamanni sem myndi á móti draga mjög úr líkunum á að jöfnunarmaður bættist við.

Minnstar líkur eru á því að Framsóknarflokkurinn geti bætt við sig ef til uppkosningar kemur. Helgast það af því að svo til engar líkur eru á að flokkurinn komi til með að ná inn jöfnunarmanni og þá þyrfti atkvæðafjöldi flokksins að aukast um þriðjung til að ná inn fjórða kjördæmakjörna manninum. Aftur á móti er flokkurinn í mestri hættu alla á að tapa kjördæmamanni komi til uppkosningar. Flokkur fólksins gæti einnig tapað manni en fengi hann þá líklega bættan í formi jöfnunarmanns.