Icelandair hefur bætt nýjum áfangastað við leiðakerfið sitt, Istanbul í Tyrklandi. Flogið verður til borgarinnar fjórum sinnum í viku frá 5. september 2025 og er flugtími um fimm klukkustundir og 30 mínútur.

Samhliða beinu flugi til Istanbul mun Icelandair efla enn frekar samstarf við flugfélagið Turkish Airlines en félögin undirrituðu samning um sammerkt flug sumarið 2023.

„Turkish Airlines er það flugfélag í heiminum sem flýgur til flestra landa og er beint flug Icelandair til Istanbul sérstaklega tímasett til að tengja vel við flug Turkish Airlines áfram til Asíu og Mið-Austurlanda. Þegar samstarfið hefur öðlast fullt gildi verður hægt að bjóða upp á hentugar tengingar og allt að átta klukkutímum styttri ferðatíma til og frá fjölda áfangastaða í austri,“ segir í tilkynningu Icelandair.

„Istanbul er frábær áfangastaður og með auknu samstarfi við Turkish Airlines opnast mjög góðar tengingar til Íslands frá fjölda áfangastaða í austri. Undanfarin ár höfum við fundið fyrir síauknum áhuga á ferðalögum á milli Asíu og Íslands og með þessum nýju tengingum eflum við sölu- og dreifikerfi okkar í Asíu. Þannig styrkjum við enn frekar okkar öfluga leiðakerfi og sömuleiðis tengingar við spennandi markaði fyrir ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.