David Wang, umboðsaðili Icelandair í Kína, segir að vinsældir Íslands séu sífellt að aukast hjá kínverskum ferðamönnum og þá sérstaklega meðal ungs fólks. Hann segir höfuðborgarsvæðið, suðurströndina og Snæfellsnes vera í miklu uppáhaldi.

Þegar heimsfaraldur skall á stöðvuðust allar utanlandsferðir Kínverja, líkt og annars staðar í heiminum. Það var ekki fyrr en í mars 2023 sem kínverska ferðamálaráðuneytið veitti aftur leyfi fyrir utanlandsferðum Kínverja til 40 landa, Ísland þar með talið.

„Sem söluaðili Icelandair í Kína höfum við skuldbundið okkur til að taka þátt í margvíslegri starfsemi með íslenska sendiráðinu í Kína á hverju ári til að efla ferðaþjónustu á Íslandi.“

David er framkvæmdastjóri Beijing BEALL GSA Business Consulting Services en það fyrirtæki starfar sem almennur söluaðili fyrir Icelandair í Kína. Samstarf fyrirtækjanna hófst árið 2003 þegar móðurfyrirtæki BEALL, China Express, náði samstarfssamningi samkvæmt tilmælum íslenska sendiráðsins í Peking.

„China Express var stofnað árið 1993 en innan við áratug var fyrirtækið orðið eitt stærsta flugmiðasölufyrirtæki í Kína. Frá stofnun BEALL árið 2007 hef ég verið aðalumboðsaðili Icelandair í Kína og hef innleitt kynningarstefnu flugfélagsins í Kína með góðum árangri.“

Flugsamgöngur milli Íslands og Kína hafa verið til umræðu undanfarin misseri en He Rulong, sendiherra Kína á Íslandi, hefur talað mikið fyrir því að fá beint flug milli landanna sem allra fyrst.

Hann hefur sagt að kínversk flugfélög á borð við Juneyao og Air China séu virkilega að skoða þennan möguleika og að flugin gætu hafist innan nokkurra ára. Sendiherrann vilji þó sjá þetta gerast jafnvel fyrr.

David bendir á að fyrirtækið hans starfi einnig að því að efla samstarf við önnur kínversk flugfélög sem viðhalda flugferðum milli Kína og Evrópu. „Þannig getum við veitt kínverskum ferðamönnum þægilegri og skilvirkari flugþjónustu.“