Ríkissjóður Ítalíu seldi 15% hlut í Monte dei Paschi di Siena (MPS), elsta banka heims, fyrir 1,1 milljarð evra með tilboðsfyrirkomulagi í vikunni. Eignarhlutur ríkisins lækkar því úr 26,7% í 11,7%.
Ítalska ríkið kom bankanum til bjargar árið 2017 og eignaðist þá 70% hlut í skiptum fyrir 5,4 milljarða evra innspýtingu. Í umfjöllun Financial Times segir að það hafi markað stærstu þjóðnýtingu ítalska ríkisins í bankakerfinu frá fjórða áratugi síðasta aldar.
Ríkið átti áfram um 64% hlut þar til á síðasta ári en hefur á síðustu misserum unnið að því að einkavæða bankann að fullu. Alls hefur söluandvirði ríkisins í MPS numið um 2,7 milljörðum evra.
Banco BPM, fjórði stærsti skráði banki Ítalíu, keypti 5% hlut í MPS af ríkinu í vikunni. Þá keypti eignastýringafyrirtækið Anima 3% hlut í MPS fyrir 219 milljónir evra en félagið átti fyrir 1% hlut í bankanum.
Þess má geta að Banco BPM, sem er stærsti einstaki hluthafi Anima með 22% hlut, lagði fram yfirtökutilboð í eignastýringafyrirtækið í síðustu viku.
Í tilkynningu sem Banco BPM sendi frá sér í dag kemur fram að bankinn hyggist ekki sækjast eftir heimild frá eftirlitsaðilum um að eignast yfir 10% eignarhlut í MPS.
Þá keyptu Delfin, fjárfestingarfélag Del Vecchio fjölskyldunnar, og Caltagirone group um 3% hlut í MPS hvor, samkvæmt heimildarmönnum FT. Delfin og Caltagirone eru stærstu hluthafar fjárfestingarbankans Mediobanca og tryggingarfélagsins Generali.