JPMorgan Chase er nú að fara í mál við viðskiptavini fyrir að hafa stolið þúsundum dala úr hraðbönkum þess með því að nýta krókaleið sem gerði þeim kleift að taka út ótakmarkað fé. Bankinn hefur þegar höfðað mál fyrir minnst þremur alríkisdómstólum í Bandaríkjunum.
Málið á sér rætur að rekja til myndbands sem sýnt var á samfélagsmiðlinum TikTok en þar er sýnt hvernig hægt er að nálgast „óendanlegt fé“ með því að skrifa sjálfum sér stóra ávísun, leggja hana inn á banka og taka síðan féð út áður en bankinn ógildir ávísunina.
Einn maður í Houston skuldar nú bankanum rúmlega 290 þúsund dali eftir að hafa lagt inn falsaða ávísun upp á 335 þúsund dali í hraðbanka JPMorgan Chase.
Bankinn segist nú vera að rannsaka þúsundir mála sem tengjast þessu æði en hefur ekki gefið upp hversu miklum pening bankinn hafi tapað. Pappírsávísanir eru afar sjaldgæfar í nútímasamfélagi en eru þó enn vinsælar meðal svikara.
Samkvæmt Global Financial Crime Report Nasdaq leiddu slíkar pappírsávísanir til 26,6 milljarða dala taps á heimsvísu á síðasta ári.