„Það sem er að gerast er að það er verið að slíta þessi tvö hlutverk í sundur, greiðslumiðlun er eitt og útlán eru annað, og Monerium er hluti af þeirri vegferð. Þetta er gert til þess að minnka áhættuna í kerfinu, sem er rosalega öruggt þangað til þetta fer allt í spað, eins og við Íslendingar sáum gerast í hruninu,“ segir Gísli Kristjánsson, meðstofnandi og tæknistjóri fjármálafyrirtækisins Monerium.
Monerium starfar í raun eins og banki og er til dæmis undir eftirliti Seðlabankans, en stundar hins vegar ekki útlánastarfsemi. „Með því að vera með verðmæti í óútlánuðu formi og miðla þeim þannig minnkar áhætta og gagnsæi eykst. Notendur hafa síðan val um hvort þeir vilja bara nota greiðslumiðlunina eða færa peninginn yfir á vaxtareikning gegn ákveðinni áhættu, sem þeir taka nú þegar í dag, ómeðvitað,“ bætir Gísli við.
Fjöldi rafmyntanotenda nái milljarði árið 2024
Tekjur Monerium koma frá þóknunum við millifærslur inn og út af bálkakeðjunni en Gísli segir hins vegar að helsti tekjustofn fyrirtækisins í framtíðinni verði í gegnum verðmætavörslu. Fyrirtækinu er skylt samkvæmt evrópskri löggjöf að leggja fram 2% af eigin fé sem tryggingu ofan á inneignir viðskiptavina, en má varsla bæði eigin framlag og undirliggjandi verðmæti, eins og til dæmis evrur, í mjög öruggum skuldabréfum eins og ríkisskuldabréfum, vörslureikning hjá öðrum bönkum og í sumum tilfellum á vörslureikningi seðlabanka.
Monerium er nú með rúmar tvær milljónir evra í verðmætavörslu og hefur sú upphæð tvöfaldast frá áramótum. Viðskiptavinirnir eru komnir yfir 100 og hefur þeim fjölgað hratt undanfarið eftir að opnað var fyrir aðgang almennings, en þjónustan stóð aðeins fyrirtækjum til boða áður. Gísli býst við hröðum vexti.
„Útbreiðsla internetsins var hraðari en nokkur önnur tækni hingað til og óx um 63% árlega. Rafmyntir vaxa nú tvöfalt hraðar, eða 113% árlega, og með sama vexti mun fjöldi rafmyntanotenda ná milljarði fyrir árslok 2024,“ sagði Gísli í erindi sínu.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.