Miðstjórn ASÍ hefur birt ályktun þar sem Play er sakað um að fljúga á undirboðum launa og landsmenn eru hvattir til að sniðganga félagið. Í ályktuninni eru lægstu laun flugliða Play sögð 266.500 krónur á meðan lægstu laun flugliða Icelandair eru sögð 307.000 krónur. Drífa Snædal, forseti ASÍ, fór jafnframt hörðum orðum um kjarasamning félagsins við Íslenska flugstéttarfélagið (ÍFF) í samtali við RÚV fyrir skemmstu. Þar sagði hún meðal annars Play bjóða lægstu laun sem hún hefði séð á íslenskum vinnumarkaði.
Fullyrðingar ASÍ og Drífu standast ekki skoðun, að því er athugun Viðskiptablaðsins á kjaramálum flugliða leiðir í ljós. Ekki er þörf á að leita langt yfir skammt að lægri grunnlaunum, en samkvæmt launatöflu í kjarasamningi Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) við Icelandair nema lægstu grunnlaun flugliða 210.115 krónum, það er 56.385 krónum minna en grunnlaun flugliða Play. Virðist sem svo að ASÍ beri strípuð lægstu grunnlaun Play saman við lægstu föstu laun Icelandair.
Lægstu föstu laun hærri hjá Play en Icelandair
Vegna flókinnar uppbyggingar kjara flugliða er þó eðlilegra að skoða föst mánaðarlaun þeirra, það er lægstu mánaðarlaun sem flugliði fær greidd óháð vinnuframlagi, þá einnig í langtímaveikindum og orlofi. Föst mánaðarlaun flugliða hjá Play samanstanda af grunnlaunum, bifreiðastyrk og sölutryggingu, og eru þau lægst fyrir byrjendur samtals 351.851 króna. Föst laun Icelandair samanstanda af grunnlaunum, vaktaálagi og handbókunargjaldi, samkvæmt upplýsingum frá stjórnarkonu FFÍ, og eru þau lægst 307.398 krónur í launatöflu, það er 44.453 krónum lægri en hjá Play.
Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verður enginn flugliði ráðinn inn sem byrjandi nú í upphafi hjá Play, aðeins fólk með reynslu sem mun fara beint í hærri launaflokka. Föst mánaðarlaun neðsta launaflokks sem nú verður ráðið í, þess sem byrjendur færast í við fastráðningu, nema ríflega 362 þúsund krónum. Föst mánaðarlaun yfirflugliða munu nema á bilinu 413.315 til 454.351 krónur.
Við föst laun flugliða bætast breytilegar tekjur á borð við dagpeninga, sölulaun og fartímagreiðslur. Icelandair greiðir flugliðum sínum bifreiðastyrk líkt og Play, en hann telst til breytilegra tekna, enda er styrkurinn þar ekki greiddur óháð vinnuframlagi.
Hér verður ekki farið í reikniæfingar til að bera saman mögulegar heildartekjur flugliða félaganna tveggja, enda er niðurstaða heildarlauna háð ýmsum viðkvæmum breytum á borð við fartíma og gengisþróunar. og slíkur samanburður yrði því lítt gagnlegur. Hvort flugfélagið greiðir í raun betur þegar allt er talið er enda aukaatriði, en ljóst má vera að hvorki grunnlaun né föst mánaðarlaun flugliða Play eru þau lægstu sem finnast á íslenskum flugmarkaði, hvað þá íslenskum vinnumarkaði í heild sinni.
Greiða bæði í sjúkrasjóð og félagssjóð
Miðstjórn ASí heldur því fram að Play fjármagni stéttarfélagið sjálft og bendir á að í kjarasamningi sé hvorki fjallað um orlofssjóð né sjúkrasjóð. Við athugun Viðskiptablaðsins kemur í ljós að starfsmenn Play greiða 0,5% af launum til stéttarfélagsins en mótframlag Play er 2%. Starfsmenn Icelandair hjá FFÍ greiða hærra, eða 1,5%. Sé litið til almenns vinnumarkaðar er framlag starfsmanns í stéttarfélagið VR, sem dæmi, 0,7%. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins felur mótframlag Play í sér 1% framlag í sjúkrasjóð og 1% framlag í félagssjóð.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun starfsfólk Play fá greitt vegna veikinda barna, öfugt við það sem ályktun miðstjórnar ASÍ heldur fram. Munu þær greiðslur fylgja almennum vinnumarkaði, það er 12 dagar á 12 mánaða tímabili.
Ber grunnlaun saman við föst laun
Viðskiptablaðið hafði samband við Drífu Snædal, forseta ASÍ, og benti á að hún virðist bera grunnlaun flugliða Play saman við föst laun flugliða Icelandair,bifreiðastyrkur og sölutrygging væru föst laun hjá Play. Drífa svaraði því ekki beint en lýsti yfir áhyggjum af því að léleg grunnlaun hafi áhrif á aðrar stærðir í kjaraumhverfinu. „Við vitum að atvinnuleysistryggingar, fæðingarorlof og allt það er reiknað út frá grunnlaununum. Ef grunnlaunin eru léleg þá er náttúrulega allt umhverfið þitt reiknað út frá því líka."
Drífa benti blaðamanni jafnframt á að heyra í skattinum varðandi sölutrygginguna sem Play greiðir. „Ég myndi hringja í skattinn og athuga hvort þetta sé löglegt. Af því að þá eru þetta laun sem eru ekki skattlögð sem laun."
Að því er Viðskiptablaðið kemst næst eru lífeyrisgreiðslur og önnur launatengd gjöld reiknuð af sölutryggingu Play. Þá liggur fyrir að tekjuskattur er greiddur af bæði sölutryggingu og bifreiðastyrk, en ferðir til og frá vinnu eru ekki frádráttarbærar frá skatti. Sé bifreiðastyrkur undanskilinn lægstu föstu launum flugliða Play standa eftir 300.500 krónur sem lúta sömu lögmálum og þeir launaliðir sem teljast til fastra launa Icelandair, og munurinn þar á aðeins tæpar 7 þúsund krónur.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .