Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var spurður út í áform Samfylkingarinnar um að loka hinu svokallaða ehf-gati og hækka fjármagnstekjuskatt, í hlaðvarpinu Kaffikróknum sem Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda stýrir.
Frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa vísað til þess að fjármálaráðuneytið undir hans stjórn hafi viljað grípa til slíkra aðgerða.
Hækkun fjármagnstekjuskattsins „algjörlega galin”
Bjarni sagði að umræðan ætti uppruna sinn í því að sveitarfélögin hefðu haft áhyggjur af að fá ekki útsvarsgreiðslur frá skattgreiðendum sem greiddu fyrst og fremst fjármagnstekjuskatt. Hins vegar væri þetta ekki eins útbreitt og talið hefði verið. Bjarni benti á að fjármagnstekjur væru mun hærri hjá eldra fólki og tók dæmi af hjónum sem væru komin á lífeyrisaldur og ættu sparnað í einkahlutafélagi.
„Hvað er kerfið að segja við þetta fólk? Heyrðu þið eruð að haga ykkur óeðlilega. Við ætlum að taka hátekjuskatt af sparnaðinum ykkar. Þetta eru auðvitað kolröng skilaboð og koma ofan á að það á að fara með fjármagnstekjuskattinn í 25%.“
Bjarni benti á að fjármagnstekjuskatturinn legðist á verðbætur og vaxtakostnaður væri ekki frádráttarbær. Þannig væri ekki verið að skattleggja raunávöxtun.
„Þetta er galin hugmynd, ég verð að segja það. Fólk verður að fara að vakna hérna fyrir þessar kosningar. Hugmyndin um að endurskoða ekki skattstofninn en halda áfram að hækka prósentuna er algjörlega galin. Það er blekking að vísa í Norðurlöndin þar sem skattstofninn er fenginn með allt öðrum hætti.“
Bjarni sagði að hið svokallaða ehf-gat væri í fyrsta lagi ekki eins útbreitt vandamál og margir hefðu talið, þ.e. að eigendur einkahlutafélaga færi ranglega launatekjur sem fjármagnstekjur, og hefði í öðru lagi meira með það að gera að ríki og sveitarfélög skiptu skatttekjum jafnt með sér en að það væri ósanngjarnt að fólk hefði tekjur af ehf-félögum. Í þriðja lagi væri skattlagning ehf-félaga ekki sérstaklega hvetjandi miðað við að hafa tekjur sem launamaður.
„Við eigum sem samfélag að segja: Við stöndum með þér í að spara. Við munum ekki koma í bakið á þér. Við munum ekki taka af þér hátekjuskatt af fjármagnstekjum, sparnaðurinn þinn myndast eftir að þú hefur greitt tekjuskattinn. Þetta er alveg húrrandi vinstripólitík, sem gengur út á að jafna niðurstöðuna fyrir alla.“