Mats Granryd, forstjóri GSMA-farsímasamtakanna, spáir því að notendur 5G-kerfisins verði orðnir 5,2 milljarðar á heimsvísu árið 2030. Hann segir að það hafi tekið tólf ár fyrir 3G að ná einum milljarði notenda en 5G þurfti aðeins þrjú ár að ná sama tölu.
GSMA (e. Global System for Mobile Communications) eru neytendasamtök sem standa fyrir hagsmuni farsímanotenda um allan heim. Mats var meðal ræðumanna á alþjóðlegri fjarskiptainnviðaráðstefnu sem fer nú fram í Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Viðskiptablaðið er statt á þeirri ráðstefnu en þar er verið að kynna næstu kynslóð 5.5 (5.5G) farnetskerfi og möguleikana sem það býður upp á.
Mats segir að 5G-kerfið hafi reynst notendum, sem eru nú í kringum 1,5 milljarðar talsins, mjög vel. Hins vegar bjóði kerfið upp á marga möguleika fyrir viðskiptalífið, eða B2B (e. Business-To-Business) og var það augljóst á seinustu fjarskiptaráðstefnu sem haldin var í Barcelona árið 2021. Hann segir að það ár hafi meirihluti gesta ekki komið frá tæknigeiranum, heldur frá öðrum geirum innan atvinnulífsins.
„Við spáum því að notkun 5G muni þrefaldast á næstu árum og að netkerfið muni bæta við einum milljarða Bandaríkjadala inn í alþjóðlega hagkerfið fyrir 2030. Almennir notendur eru tilbúnir að greiða fyrir góðan hraða en möguleikarnir fyrir fyrirtæki eins og Uber og Spotify eru óendanlegir.“
Mats bætir við að GSMA hafi nýlega kallað eftir reglugerð innan Evrópusambandsins um sanngjarna hlutdeild (e. Fair Share) á notkun kerfisins. Eins og stendur er enginn fjárhagslegur hvati fyrir fyrirtæki sem notast við mikið gagnamagn til að draga úr því. Hann segir að reglugerð myndi hvetja til ábyrgari meðhöndlunar á 5G án þess að eyðileggja upplifun viðskiptavina.
„Við viljum sjá umhverfi þar sem fyrirtæki sem notast við óhóflegt gagnamagn sýni lit og hjálpi við að skapa netkerfi sem er fyrir marga frekar en fáa,“ segir Mats.