Tæknileg bilun átti sér stað hjá greiðsluforritinu PayPal í dag sem varð til þess að það lá niðri um allan heim í stutta stund. Samkvæmt BBC mun fyrirtækið hafa leyst vandann fljótlega.
Downdetector, vefsíða sem greinir frá slíkum tæknibilunum á netinu, hafði borist meira en sjö þúsund kvartanir frá notendum um hádegi í dag en bilunin hófst klukkan 10:53 að íslenskum tíma.
Viðskiptavinir fóru á samfélagsmiðla til að segja öðrum frá biluninni en margir komust heldur ekki inn í greiðsluforritið Venmo, sem er jafnframt í eigu PayPal.
PayPal, sem var stofnað árið 1998, er með 432 milljón reikninga á sínum snærum og er starfrækt í meira en 200 löndum.