Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Plaio, sem þróar lausn með gervigreind fyrir lyfja- og líftæknifyrirtæki, hefur gert samstarfssamning við alþjóðlega lyfjafyrirtækið Eisai, sem mun nota hugbúnaðarlausn Plaio til að skala upp framleiðslu á lyfjum fyrirtækisins.
Plaio segir í tilkynningu að markmiðið með samstarfinu sé að byggja upp sjálfbæra og trausta birgðakeðju til að mæta vaxandi eftirspurn eftir lyfjum Eisai út um allan heim.
„Það er stórt skref fyrir okkur að fá inn þetta öfluga fyrirtæki og þetta flýtir innreið okkar á Bandaríkjamarkað. Eisai er mjög þekkt lyfjafyrirtæki og framleiðir eitt eftirsóttasta lyfið í heiminum í dag,“ segir Ólafur Pálsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá PLAIO.
„Framtíðaráform Eisai að umbreyta meðhöndlun á flóknum sjúkdómum með nýjum lyfjum er í takt við okkar framtíðarsýn, það er að nýta nýjustu tækni eins og gervigreind til að efla ákvarðanatöku í lyfjaframleiðslu. Með Plaio hugbúnaðinum munum við gera þeim kleift að mæta þörfum sjúklinga um allan heim og bæta aðgengi að lyfjum almennt.“
Hugbúnaðarlausn Plaio sjálfvirknivæðir aðfangakeðjur með það að markmiði að hagræða í rekstri og hámarka nýtingu aðfanga. Fyrirtækið segir lausnina sérstaklega hannaða til að mæta þörfum lyfjaiðnaðarins og sé einföld í uppsetningu, sem hafi í för með sér minni tíma og kostnað viðskiptavina við innleiðingu.
Hjá Eisai vinna yfir 10 þúsund manns og er fyrirtækið með starfsstöðvar út um allan heim. Lyf Eisai meðhöndla m.a. tauga- og krabbameinssjúkdóma, þar með talið Alzheimer. Ný lyf fyrirtækisins hægja á hrörnun heilastarfsemi á upphafsstigum sjúkdómsins og veita sjúklingum tækifæri til taka þátt í daglegu lífi og viðhalda sjálfstæði sínu.