Regus hefur opnað nýjar starfsstöðvar við Laugaveg 27b ásamt því að opna í Síðumúla 30.

Tómas Ragnarz, forstjóri Regus á Íslandi sem opnaði fyrsta skrifstofusetrið í Reykjavík fyrir tíu árum síðan, segir að Regus hér á landi sé nú þegar orðið stærsta einkaumboð Regus í Evrópu. Starfsstöðvar Regus á Íslandi eru í dag fjórtán talsins.

Regus fyrirhugar að opna þrjár aðrar starfsstöðvar á árinu 2025 bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni.

„Vöxturinn á Íslandi hefur vakið heimsathygli í ljósi stærðar landsins og höfðatölu,“ segir Tómas.

Á Laugavegi 27b hefur Regus komið upp svokölluðu DIXON Lounge sem verður eingöngu í boði fyrir meðlimi. Tómas segir að með opnun á þessum nýja setri sé verið að setja ný viðmið hvað varðar stemningu og lúxus. Slegin verði skjaldborg um notalegt andrúmsloftið og afslappað umhverfið með algeru banni við myndatökum og notkun samfélagsmiðla hvers konar.

Síðumúla 30 opnar Regus 1.000 fermetra starfsstöð sem fyrirtækið á möguleika á að stækka upp í allt að 1.600 fermetra þegar fram líða stundir. Hönnun Síðumúla, Laugavegs og Dixon Lounge var unninn af Vinnustofu 777.

Vegna opnunarinnar í Síðumúla hefur Regus við gert samkomulag við Berlín Reiðhjólaverzlun, sem er skammt frá, um sérkjör á öllu viðhaldi og nýjum hjólum fyrir viðskiptavini skrifstofusetursins til að stuðla að heilbrigðum ferðamáta.