Anders Holch Povlsen, auðugasti maður Danmerkur og eigandi tískurisans Bestseller, verður stærsti seljandinn í frumútboði sænska fjártæknifyrirtækisins Klarna, sem stefnir á skráningu á kauphöllina í New York á næstunni.
Samkvæmt útboðslýsingu sem birt var í dag, en Børsen greinir frá, hyggst eignarhaldsfélag hans Heartland selja að lágmarki 6,3 milljónir hluta í útboðinu.
á er félagið reiðubúið að ráðstafa viðbótar 1,1 milljón hluta ef söluráðgjafar virkja svonefndan yfirúthlutunarkost (e. greenshoe option) til að halda stöðugleika í hlutabréfaverði eftir skráningu.
Verðbilið í frumútboðinu er áætlað 35–37 bandaríkjadalir á hlut, sem jafngildir því að Heartland gæti fengið greitt á bilinu 1,4–1,8 milljarða danskra króna fyrir eignarhlutinn.
Efri mörk þess í íslenskum krónum eru um 34,6 milljarðar.
Þrátt fyrir þessa sölu mun Anders Holch áfram teljast til stærstu hluthafa í Klarna. Eftir skráningu lækkar hlutur hans úr rúmlega 10% niður í tæp 9%.
Miðað við áætlað verðmat Klarna sem á 14 milljarða bandaríkjadali er hlutur Povlsen metinn á um 1,4 milljarða bandaríkjadala. Samsvarar það um 172 milljörðum íslenskra króna.
Það er margfalt hærra en upphaflegt kaupverð hans sem var undir 250 milljónum bandaríkjadala. Árið 2021 var Klarna metið á allt að 46 milljarða bandaríkjadala, en þá fór fyrirhuguð skráning út um þúfur þegar markaðsaðstæður versnuðu og verðmatið hrundi.
Í vor frestaði félagið einnig áformum um frumútboð þegar tollayfirlýsingar Donalds Trump sköpuðu mikla óvissu á mörkuðum.
Nú hefur félagið hins vegar endurvakið áformin og stefnt er að frumútboði á næstunni.
Klarna er hvað þekktast fyrir „kaupa núna, greiða síðar“ greiðslulausnir og hefur á undanförnum árum vaxið hratt á alþjóðlegum mörkuðum.
Frumútboðið markar því þáttaskil í rekstri félagsins og hefur vakið mikla athygli fjárfesta bæði á Wall Street og í Evrópu.