Royal Caribbean Cruises Ltd. hefur greint frá 17,5% tekjuvexti á þriðja ársfjórðungi þessa árs og námu tekjur fyrirtækisins 4,89 milljörðum dala. Tekjur á hvern farþega jukust þá einnig um 18% og nam heildarrekstrarkostnaður 2.391 milljónum dala.

Þrátt fyrir velgengni í skemmtiferðasiglingum varar Royal Caribbean við minni hagnaði á næstu mánuðum sökum áhrifa fellibyljanna sem skullu á fyrr í þessum mánuði.

Hærri verðlagning, sterkari tekjur um borð í skipunum og lækkandi kostnaður eru sagðir hafa hjálpað fyrirtækinu í síðasta uppgjöri þess og hefur gengi Royal Caribbean hækkað um tæp 5% undanfarna fimm daga.

„Óvenjugott uppgjör okkar á þriðja ársfjórðungi og auknar væntingar fyrir árið endurspegla mikla eftirspurn eftir mismunandi ferðum hjá okkur. Við sjáum einnig aukið eftirspurnarmynstur fyrir fyrirtækið árið 2025,“ segir Jason Liberty, framkvæmdastjóri Royal Caribbean.