Samkaup og Heimkaup hafa skrifað undir samkomulag um helstu forsendur sameiningar félaganna með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafund beggja félaga.
Samkaup er yfirtökufélagið og sameinast þar með öllum einingum Heimkaupa á matvörumarkaði og greiðir fyrir þau með útgefnu hlutafé í Samkaupum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.
Önnur félög í eigu Skeljar á neytendamarkaði, þ.e. Orkan, Lyfjaval og Löður, eru ekki hluti af samrunanum.
„Þetta merkir að undir rekstri Samkaupa verða verslanir undir merkjum 10-11, Prís, Extra auk þriggja þægindaverslana sem reknar eru á þjónustustöðvum Orkunnar. Þá á Heimkaup eignarhlut í veitingafélaginu Clippers ehf. sem m.a. rekur Sbarro.”
Skel fjárfestingafélag hf., sem er eigandi að 81% hluta í Heimkaup, og Samkaup hf. hafa á árinu átt í viðræðum um samruna Samkaupa og tiltekinna dótturfélaga Skeljar. Þeim viðræðum var slitið í lok október en í framhaldinu hófust viðræður um sameiningu rekstrareininga á matvælamarkaði.
„Að mati samrunaaðila getur samlegð í rekstri umræddra félaga orðið umtalsverð,“ segir í tilkynningunni.
Eftir sameiningu fái hluthafar Heimkaupa greitt með hlutafé í Samkaupum og eignast þar með rúmlega 10% hlutafjár í Samkaupum. Fyrir viðskiptin er Skel eigandi að 5% eignarhlut í Samkaupum í gegnum eignarhaldsfélag. Hluthafasamkomulag meðal stærstu hluthafa í Samkaupa gerir ráð fyrir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað.
„Sameinað félag hefur burði til að nýta sér þau tækifæri sem nú eru á dagvörumarkaði. Neytendur kalla á aukna samkeppni og nýungar á smásölumarkaði eins og móttökur Prís verslunarinnar sem opnaði fyrr á árinu sýna. Heimkaup hefur frá upphafi lagt áherslu á nýjungar á borð við netverslun og nú síðast með Prís sem ítrekað hefur boðið neytendum lægsta verð á mat- og dagvöru,“ segir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar fjárfestingarfélags.
„Hagsmunir SKEL eru áfram þeir sömu á smásölumarkaði með hlutdeild í Samkaup og óbreyttu eignarhaldi á Lyfjavali og Orkunni. SKEL mun áfram leita leiða til að auka samkeppni og fjölbreytni með arðbærum hætti í fjárfestingum sínum á smásölumarkaði.“
Í tilkynningu sem Samkaup sendu frá sér segir að samruninn sé í samræmi við framtíðarstefnu Samkaupa og feli í sér margvísleg tækifæri og breikkar tekjugrunn félagsins.
„Samkaup er yfirtökufélag í þessum samruna og ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu eftir vinnu síðustu missera. Ég er sannfærður um að sameinað félag eigi eftir að gera góða hluti til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa.
„Við sjáum mikil tækifæri í samrunanum sem mun styrkja rekstrarstöðu Samkaupa til lengri tíma en við væntum töluverðar samlegðar í samrunanum. Nettó hefur verið góðri aukningu undanfarið með breyttri verðstefnu og með stækkun verslananetsins mun staða Nettó styrkjast enn frekar. Staða okkar gagnvart birgjum mun styrkjast til muna og samkeppnisstaða okkar á markaði sömuleiðis. Viðskiptavinir okkar munu að sjálfsögðu njóta góðs af því.
Verslanir okkar á landsbyggðinni, Nettó, Kjörbúðir og Krambúðir, leika lykilhlutverk í framtíðarsýn Samkaupa. Birgðakerfi okkar gerir okkur kleift að flytja vörur milli landshluta ódýrar en nokkur annar aðili og með innkomu Heimkaupa í samstæðuna sjáum við afar spennandi möguleika til vaxtar,“ segir Gunnar Egill.