Landspítali hefur falið Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins umsýslu eignarhluta spítalans í sprotafélögum á sviði heilbrigðistækni. Um er að ræða 11 sprotafélög en gert er ráð fyrir að eignasafnið stækki í framtíðinni.
Samningurinn byggir á sambærilegum samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem var gerður árið 2018 þar sem Nýsköpunarsjóði var falin umsýsla með eignarhlutum ríkissjóðs í óskráðum félögum.
Í samningnum felst að Nýsköpunarsjóður fer með eignarhlutana og nýtist þar sérþekking sjóðsins á rekstri sprotafélaga.
„Það er mikilvægt að hlúa vel að sprotafélögum sem spretta upp innan veggja spítalans og er þessi samningur liður í að skapa trausta og hvetjandi umgjörð fyrir frumkvöðlastarfið,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Árið 2021 var einnig gerður sambærilegur samningur við HVIN (háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið) um eignarhluti í eigu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands þegar sú stofnun var lögð niður.
„Um leið og það er mikilvægt að halda utan um þau verðmæti sem skapast í því frumkvöðlastarfi sem á sér stað innan spítalans þá ætti reynsla og stuðningur frá Nýsköpunarsjóði að nýtast frumkvöðlunum,“ segir Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.