Hollenska matarsendingarfyrirtækið Just Eat Takeaway hefur náð samkomulagi um að selja dótturfyrirtækið Grubhub með umtalsverðu sölutapi þremur árum eftir að hafa keypt félagið. Financial Times greinir frá.

Just Eat Takeaway keypti hið bandaríska matsendingarfyrirtæki Grubhub árið 2021 fyrir 7,3 milljarða dala. Nú hefur hollenska félagið náð samkomulagi um sölu á Grubhub - þar sem heildarvirði síðarnefnda félagið er metið á 650 milljónir dala – til bandaríska félagsins Wonder Group.

Just Eat hefur unnið að því að selja bandaríska dótturfyrirtækið síðustu tvö árin eftir þrýsting frá hluthöfum sem kölluðu eftir eignasölu. Hollenska félagið færði niður bókfært virði Grubhub um 3 milljarða dala árið 2022 auk þess að færa niður virði yfirtekinna félaga, þar á meðal Gubhub í fyrra og í byrjun þessa árs.

Hlutabréfaverð Just Eat hefur hækkað um meira en 15% í morgun og nemur markaðsvirði hollenska félagsins nú um 2,7 milljörðum evra.