Aðstæður fyrir aðskilnað endurskoðunar- og ráðgjafahluta alþjóðlega fyrirtækisins Ernst & Young (EY) eru að miklu leyti ólíkar og hugsanlega óhagfelldari hér en á stærri markaðssvæðum fyrirtækjasamstæðunnar, þar sem endanleg örlög hins gamalgróna félags munu ráðast. Greint var frá því í lok maí að ráðagerðin væri til skoðunar, en fyrirtækið hefur lítið viljað tjá sig og fréttaflutningur um málið hefur því byggt nær alfarið á nafnlausum heimildarmönnum.
Bæði markaðurinn sem hin svokölluðu fjögur stóru endurskoðunarfélög – EY og samkeppnisaðilar þess Deloitte, KPMG og PWC – starfa á hér á landi og reksturinn sjálfur eru um margt frábrugðin stórum mörkuðum á borð við Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið. Mikil óvissa ríkir, bæði um endanlega útfærslu og hvort yfirhöfuð verður af aðskilnaðinum.
Minni ráðgjöf á minni og sérhæfðari markaði
Viðmælendur blaðsins sem til geirans þekkja segja þó næsta víst að áhrifin yrðu allt önnur hér en á stærri mörkuðum, en þar muni það svigrúm sem aðildarfyrirtækjum verður gefið skipta sköpum. Nokkuð ljóst er að ef til atkvæðagreiðslu meðal allra meðeigenda samsteypunnar á heimsvísu kemur verða það aðstæður og hagsmunamat fyrir umfangsmestu starfsemina á fjölmennustu svæðunum sem ráða munu för.
Það er ekki aðeins stærðargráðan sem er ólík, heldur uppbygging starfseminnar. Í Bandaríkjunum er ráðgjafarþjónustan ráðandi hluti rekstrarins hvað stærð varðar, en hér á landi er ráðgjafaþjónusta EY fremur smá í sniðum bæði samanborið við önnur lönd og við helstu samkeppnisaðila hér á landi.
Loks er þjónustuframboð hér á landi alla jafna sérhæfðara og afmarkaðra sökum fæðar og markaðurinn mun minni sem gæti þýtt færri tækifæri. Það bendir því flest til þess að verði íslenski ráðgjafahlutinn látinn standa á eigin fótum muni hann hafa nokkru minna svigrúm til að nýta nýfundið frelsið til að vaxa og dafna.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.