Indverski milljarðamæringurinn og stofnandi einnar stærstu viðskiptasamsteypu landsins, Gautam Adani, hefur verið ákærður af bandaríska dómsmálaráðuneytinu fyrir að múta stjórnmálamönnum.
Saksóknarar hafa afhent 54 blaðsíðna ákæru sem heldur því fram að Adani, stjórnarformaður Adani Group, hafi persónulega fundað með embættismönnum til að tryggja ólöglega samninga fyrir orkufyrirtæki í eigu samsteypunnar.
Þá mun Adani, ásamt tveimur stjórnendum Adani Green Energy, einnig hafa gefið bandarískum fjárfestum og fjármálastofnunum ranga mynd af mútu- og spillingaraðferðum orkufyrirtækisins.
Alls hafa átta stjórnendur verið ákærðir í málinu. Enginn hefur hins vegar verið handtekinn og er talið að þeir leiki allir lausum hala erlendis.
„Skrifstofan mín er staðráðin í að uppræta spillingu á alþjóðlegum markaði og vernda fjárfesta fyrir þeim sem leitast við að auðga sig á kostnað fjármálamarkaða okkar,“ segir Breon Peace, lögmaður saksóknaraskrifstofunnar í Brooklyn, sem fer með málið.