Samkvæmt uppgjöri líftæknilyfjafyrirtækisins Alvotech, sem birtist rétt í þessu eftir lokun markaða vestanhafs, námu heildartekjur félagsins námu 492 milljónum bandaríkjadala, sem samsvarar um 65 milljörðum króna á gengi dagsins og er um 427% aukning frá fyrra ári.
Sérstaklega var mikil aukning var í sölutekjum, sem námu 273 milljónum dala, um 36 milljörðum króna, en sölutekjurnar hækkuðu um 462% frá árinu 2023.
Aðlöguð EBITDA var jákvæð um 108 milljónir dala, um 14,3 milljarða króna, samanborið við neikvæða EBITDA-framlegð upp á 291 milljón dala árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins var 70 milljónir dala, um 9,3 milljarðar króna, á árinu 2024, en árið áður var rekstrartap upp á 355 milljónir dala, um 46,9 milljarða króna.
Róbert Wessman, stofnandi, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, segir uppgjörið staðfesta árangur af tólf ára fjárfestingu í þróun og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða.
„Á síðasta ári skiluðum við mettekjum af vörusölu og leyfisgreiðslum, auk þess sem aðlöguð EBITDA framlegð var jákvæð í fyrsta skipti. Á sama tíma náðum við mikilvægum áföngum í þróun nýrra lyfja og sóttum um markaðsleyfi fyrir þrjár nýjar hliðstæður á helstu mörkuðum, sem stuðla munu að vaxandi sölutekjum og aukinni rekstrarhagkvæmni.“
Fjármálastjórinn Joel Morales bendir á að tekjur dreifist nú betur á milli tveggja lyfja og fleiri markaðssvæða en áður.
„Niðurstaða ársins er í samræmi við afkomuspána sem við gáfum út snemma á síðasta ári. Tekjurnar dreifast nú betur milli tveggja lyfja og fleiri markaðssvæða en áður. Þá jókst framlegð af sölu jafnt og þétt milli fjórðunga, með betri nýtingu á lyfjaverksmiðjunni, aukinni framleiðslu og meiri skilvirkni. Þetta sýnir vel kosti þess að hafa alla þætti þróunar og framleiðslu á einni hendi. Liðið ár var ár mikilla breytinga og ég gæti ekki verið ánægðari með afkomu og rekstur félagsins.“
Alvotech hefur einnig verið mjög virkt í þróun nýrra lyfja og hefur á árinu 2024 sótt um markaðsleyfi fyrir þrjár nýjar hliðstæður. Félagið tilkynnti einnig um kaup á rannsóknarstarfsemi Xbrane í Svíþjóð, sem mun styrkja lyfjaþróun félagsins til framtíðar.
Hlutabréf Alvotech voru tekin inn í Líftæknivísitölu Nasdaq í desember 2024, sem undirstrikar aukið vægi félagsins á alþjóðlegum markaði, samkvæmt uppgjörinu.
Þá hóf fyrirtækið sölu á nýju líftæknilyfi í Bandaríkjunum og hefur sótt um markaðsleyfi fyrir fleiri lyf, sem gætu tryggt áframhaldandi vöxt í tekjum á komandi árum.
Lausafjárstaða félagsins í lok árs var 51,4 milljónir dala.
Heildarskuldir félagsins voru 1.068,6 milljónir dala, að meðtöldum 32,7 milljónum dala í næsta árs afborgunum.