Þjóðar­sjóður Sádi Arabíu hefur á­kveðið að draga úr er­lendum fjár­festingum um tæp­lega þriðjung og ein­beita sér að inn­lendum fjár­festingum, sam­kvæmt Financial Times.

Eigna­safn sjóðsins er metið á um 930 milljarða Banda­ríkja­dali en sam­kvæmt FT stefnir sjóðurinn á það að er­lendar fjár­festingar myndi um 18 til 20 prósent eigna­safnsins en hlut­fallið stendur í 30 prósent um þessar mundir.

Sjóðs­stjóri þjóðar­sjóðsins, Yasir al-Ruma­yy­an, sagði á ráð­stefnu í Ríad í gær að upp­haf­lega hafi sjóðurinn verið ætlaður til að fjár­festa í inn­lendum verk­efnum.

„En á skömmum tíma fór hlut­fall er­lendra fjár­festinga úr 2% í 30%,“ sagði al-Ruma­yy­an í gær.

Sjóðurinn hefur nú þegar selt tölu­vert af hlutum í eignar­halds­fé­laginu BlackRock, skemmti­ferða­skips­fyrir­tækinu Carni­val og við­burðar­fyrir­tækinu Live Nation.

Sam­kvæmt gögnum frá verð­bréfa­eftir­liti Banda­ríkjanna (SEC) fór velta sjóðsins á banda­rískum hluta­bréfa­markaði úr 35 milljörðum Banda­ríkja­dala um árs­lok 2023 í 20,5 milljarða dali í lok mars­mánaðar.

Þjóðar­sjóður Sáda hefur verið um­svifa­mikill á er­lendum mörkuðum síðustu ár og setti sjóðurinn meðal annars 45 milljarða dali í Vision Fund-sjóð Soft­bank árið 2016 á­samt því að fjár­festa í BlackRock fyrir 20 milljarða dali árið eftir.

Þá fjár­festi sjóðurinn í knatt­spyrnu­fé­laginu New­cast­le og fjár­magnaði LIV golf móta­röðina.

„Við erum að fara að ein­beita okkur að efna­hagi Saudi-Arabíu en við höfum verið að reyna gera of mikið af stórum hlutum,“ sagði al-Ruma­yy­an sem gaf enga tíma­línu um hve­nær sjóðurinn ætlaði að ná 18 til 20 prósenta mark­miði sínu.

Líkt og Við­skipta­blaðið fjallaði um í vor hefur fjár­hags­staða sjóðsins versnað veru­lega á undan­förnum árum en stjórn­endur hans virðast hafa spennt bogann full hátt þegar kemur að fjár­festingum.

Í fyrra lagði sjóðurinn hinni svo­kölluðu Línu­borg til 48 milljarða dala, fjár­festi 100 milljörðum í ör­flögu­tækni og stofnaði nýtt flug­fé­lag, Ri­ya­dh Air, svo dæmi séu tekin.

Fyrr­greind verk­efni hafa haft nei­kvæð á­hrif á lausa­fjár­stöðu sjóðsins, en hand­bært fé í lok árs 2023 var ekki nema 15 milljarðar Banda­ríkja­dala sem er það lægsta frá því að sjóðurinn byrjaði að greina opin­ber­lega frá fjár­hags­stöðu sinni.

Þjóðar­sjóðurinn hefur þurft í kjöl­farið að taka lán til að geta fjár­magnað öll fjár­festinga­verk­efnin, eitt­hvað sem sjóðurinn hefur bæði forðast og aldrei þurft að gera áður.

Sádí-arabíska ríkið greip til að­gerða í byrjun árs með tveimur veg­legum skulda­bréfa­út­boðum en ríkið kom fjár­festum veru­lega á ó­vart þegar það seldi bréf fyrir 12 milljarða dala í janúar, nokkrum dögum eftir að hafa gefið það út að á­ætluð láns­fjár­þörf fyrir árið í heild væri 9 milljarðar.

Nokkrum vikum seinna sótti þjóðar­sjóðurinn svo einnig 5 milljarða dala með sama hætti