Þjóðarsjóður Sádi Arabíu hefur ákveðið að draga úr erlendum fjárfestingum um tæplega þriðjung og einbeita sér að innlendum fjárfestingum, samkvæmt Financial Times.
Eignasafn sjóðsins er metið á um 930 milljarða Bandaríkjadali en samkvæmt FT stefnir sjóðurinn á það að erlendar fjárfestingar myndi um 18 til 20 prósent eignasafnsins en hlutfallið stendur í 30 prósent um þessar mundir.
Sjóðsstjóri þjóðarsjóðsins, Yasir al-Rumayyan, sagði á ráðstefnu í Ríad í gær að upphaflega hafi sjóðurinn verið ætlaður til að fjárfesta í innlendum verkefnum.
„En á skömmum tíma fór hlutfall erlendra fjárfestinga úr 2% í 30%,“ sagði al-Rumayyan í gær.
Sjóðurinn hefur nú þegar selt töluvert af hlutum í eignarhaldsfélaginu BlackRock, skemmtiferðaskipsfyrirtækinu Carnival og viðburðarfyrirtækinu Live Nation.
Samkvæmt gögnum frá verðbréfaeftirliti Bandaríkjanna (SEC) fór velta sjóðsins á bandarískum hlutabréfamarkaði úr 35 milljörðum Bandaríkjadala um árslok 2023 í 20,5 milljarða dali í lok marsmánaðar.
Þjóðarsjóður Sáda hefur verið umsvifamikill á erlendum mörkuðum síðustu ár og setti sjóðurinn meðal annars 45 milljarða dali í Vision Fund-sjóð Softbank árið 2016 ásamt því að fjárfesta í BlackRock fyrir 20 milljarða dali árið eftir.
Þá fjárfesti sjóðurinn í knattspyrnufélaginu Newcastle og fjármagnaði LIV golf mótaröðina.
„Við erum að fara að einbeita okkur að efnahagi Saudi-Arabíu en við höfum verið að reyna gera of mikið af stórum hlutum,“ sagði al-Rumayyan sem gaf enga tímalínu um hvenær sjóðurinn ætlaði að ná 18 til 20 prósenta markmiði sínu.
Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vor hefur fjárhagsstaða sjóðsins versnað verulega á undanförnum árum en stjórnendur hans virðast hafa spennt bogann full hátt þegar kemur að fjárfestingum.
Í fyrra lagði sjóðurinn hinni svokölluðu Línuborg til 48 milljarða dala, fjárfesti 100 milljörðum í örflögutækni og stofnaði nýtt flugfélag, Riyadh Air, svo dæmi séu tekin.
Fyrrgreind verkefni hafa haft neikvæð áhrif á lausafjárstöðu sjóðsins, en handbært fé í lok árs 2023 var ekki nema 15 milljarðar Bandaríkjadala sem er það lægsta frá því að sjóðurinn byrjaði að greina opinberlega frá fjárhagsstöðu sinni.
Þjóðarsjóðurinn hefur þurft í kjölfarið að taka lán til að geta fjármagnað öll fjárfestingaverkefnin, eitthvað sem sjóðurinn hefur bæði forðast og aldrei þurft að gera áður.
Sádí-arabíska ríkið greip til aðgerða í byrjun árs með tveimur veglegum skuldabréfaútboðum en ríkið kom fjárfestum verulega á óvart þegar það seldi bréf fyrir 12 milljarða dala í janúar, nokkrum dögum eftir að hafa gefið það út að áætluð lánsfjárþörf fyrir árið í heild væri 9 milljarðar.
Nokkrum vikum seinna sótti þjóðarsjóðurinn svo einnig 5 milljarða dala með sama hætti