Íslendingar hafa veðjað tugum milljóna króna á alþingiskosningarnar sem haldnar verða 30. nóvember næstkomandi, samkvæmt talsmönnum veðbankanna Coolbet og Epicbet.

Stuðlar á kosningarnar voru opnaðir 15. október hjá veðbönkunum tveimur. Þar er hægt að veðja um allt mögulegt er varðar kosningarnar, um atkvæðaprósentu og fjölda þingmanna flokkanna, næsta forsætisráðherra og hvort tiltekinn einstaklingur komist inn á þing, svo eitthvað sé nefnt.

Spurður hvaða veðmál hafi verið vinsælust segir talsmaður Coolbet mest veðjað á stærsta þingflokkinn, og þá helst aðra flokka en Samfylkingu. Það komi til vegna þess að hinir flokkarnir hafi verið stuðlaðir hærra, og gefi þar af leiðandi meira af sér, ef veðmálið heppnast.

„Einnig hefur verið mikil velta á innbyrðis viðureignum milli flokka og þá einna helst hvort Miðflokkur eða Sjálfstæðisflokkur fái hærri prósentu.“

Sósíalistar líklegri en VG

Ýmislegt áhugavert má sjá út frá stuðlum Coolbet um fjölda þingmanna. Þannig er t.d. stuðullinn 3,00 á að Vinstri grænir fái þrjá eða fleiri menn inn á þing, sem gefur til kynna 33% líkur á að þeir nái inn þremur þingmönnum.

Á sama tíma er stuðullinn á að Sósíalistar nái þremur eða fleiri mönnum inn 1,6, eða sem nemur 63% líkum. Þá er stuðullinn 5,00 á að Lýðræðisflokkurinn nái einum eða fleiri þingmönnum inn, sem nemur fimmtungslíkum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.