Alvotech gjaldfærði tap að fjárhæð 69 milljónir dala, sem samsvarar um 9,5 milljörðum króna á gengi dagsins, á fyrstu níu mánuðum ársins vegna endurfjármögnunarinnar, sem að mestu má rekja til uppgjörs breytanlegu skuldabréfanna fyrir lokagjalddaga.
Í júní á þessu ári greindi líftæknilyfjafélagið frá því að eigendur meirihluta breytilegraskuldabréfa Alvotech, sem upphaflega voru útgefin 16. nóvember og 20. desember 2022 með lokagjalddaga 20. desember 2025, óskuðu eftir að nýta breytirétt bréfanna í almenna hluti á genginu 10 dollarar.
Breytiréttardagur var 1. júlí síðastliðinn og gaf Alvotech úr ný bréf til þeirra sem nýttu sér breytiréttinn.
Í júlí á þessu ári greindi Alvotech frá því að félagið hefði lokið endurfjármögnun skulda sinna.
Joel Morales, fjármálastjóri Alvotech, fagnaði því hversu margir fjárfestar nýttu sér réttinn til að skipta breytanlegum skuldabréfum félagsins yfir í hlutabréf.
„Það lýsir trausti á félaginu, enda horfur okkar afar góðar til lengri eða skemmri tíma, sem leiðandi aðili á sviði þróunar og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða,“ sagði Joel Morales.
Fjármunatekjur Alvotech námu 79,1 milljón dala á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 46,4 milljónir dala á sama tímabili í fyrra en samkvæmt uppgjöri félagsins er þessi munur aðallega vegna endurmats á gangvirði afleiðna tengdum breytanlegum skuldabréfum félagsins, þegar meirihluti eigenda nýtti breytiréttinn.
Á sama tímabili í fyrra var ráðandi þáttur tekjufærsla vegna breytinga á gangvirði hlutabréfa í eigu stærstu hluthafa félagsins sem tengt er markaðsgengi (svo nefnd Predecessor Earn Out Shares).
Á fyrstu níu mánuðum ársins námu fjármagnsgjöld Alvotech 237,7 milljónum dala, samanborið við 107,8 milljónir dala á sama tíma í fyrra.
„Fjármagnsgjöldin á fyrstu níu mánuðum ársins má að stórum hluta rekja til vaxtakostnaðar af útistandandi skuldum upp á 115,0 milljón dali og gjaldfærslu upp á 107,3 milljónir dala vegna gangvirðisbreytingar á afleiðutengdri skuld, tengdri hlutabréfum sem afhent voru stærstu hluthöfum félagsins fyrir skráningu þess á markað (áðurnefnd Predecessor Earn Out Shares)“ segir í uppgjöri félagsins.
Gangvirði afleiðunnar ræðst að miklu leyti af markaðsgengi hlutabréfa Alvotech og mikil hækkun á markaðsgengi bréfa Alvotech á fyrsta ársfjórðungi olli gjaldfærslu á fyrstu níu mánuðum ársins, segir í uppgjörinu.