Alþjóðlega orkustofnunin (IEA) varar við því að hratt vaxandi olíuframleiðsla, leidd af Sádi-Arabíu, muni á síðustu þremur mánuðum ársins rekast á minnkandi eftirspurn, einkum í Asíu.
Í nýrri mánaðarskýrslu stofnunarinnar er spáð að vöxtur í heimseftirspurn eftir olíu verði einungis 680 þúsund tunnur á dag í ár um þriðjungi minni aukning en spáð var í janúar.
Mun það vera minnsti vöxtur síðan 2009 ef undanskilin eru áhrif heimsfaraldursins.
Helstu ástæður eru hægari aukning á olíunotkun í Kína, Indlandi og Brasilíu, en öll þrjú ríkin standa einnig frammi fyrir hættu á hærri tollum í viðskiptum við Bandaríkin.
Eftir tvö ár í jafnvægi er framboð nú farið að vaxa mun hraðar en þörf er á.
IEA áætlar að framleiðsla muni aukast um 2,5 milljónir tunna á dag í ár, eða um 30% meira en spáð var í janúar.
Á fyrri hluta ársins fór mest af umframframleiðslu olíu í birgðasöfnun, og tók Kína við rúmlega 90% af því magni.
Frá og með hausti, eftir sterkt sumartímabil þar sem olíuhreinsunarstöðvar hafa starfað á methraða til að anna eldsneytiseftirspurn, spáir IEA að umframmagn upp á tvær milljónir tunna á dag geti varað langt fram til ársins 2026.
Stofnunin bendir þó á að spár geti breyst ef Bandaríkin herða refsiaðgerðir gegn Rússlandi og Íran, þriðja og fimmta stærsta olíuframleiðanda heims.
Spár IEA eru í andstöðu við nýjustu mánaðarspá Opec, sem birt var á þriðjudag. Þar hækkaði olíubandalagið áætlanir um eftirspurn í ár en lækkaði spá um framleiðsluaukningu í Bandaríkjunum og öðrum ríkjum utan Opec.
Opec spáir því að eftirspurn eftir olíu vaxi um 1,38 milljónir tunna á dag árið 2026, nær tvöfalt hraðar en IEA gerir ráð fyrir.