Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,6% í október og jókst því um 0,2 prósentustig frá septembermánuði. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% milli mánaða.
Verðbólgumælingin var í samræmi við væntingar hagfræðinga, að því er segir í umfjöllun Wall Street Journal.
Bent er á að nokkrar vikur séu í næstu vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna í desember, en verðlagning á skuldabréfamörkuðum í morgun gaf til kynna að markaðsaðilar telji 66% líkur á að bankinn lækki stýrivexti í þriðja sinn í ár.
Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, hélst óbreytt í 3,3% í samræmi við væntingar greiningaraðila.