Þetta mál er farið að snúast dálítið mikið um persónuna Steinar Þór sem ég vildi sannarleg ekki að væri. Það er rosalega bagalegt að lykilvitnið og lykilleikmaður í atburðarásinni sé lögmaður íslenska ríkisins,“ sagði Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Frigusar II í fyrirtöku í bótamáli Frigusar II gegn Lindarhvoli og íslenska ríkinu í síðustu viku vegna sölu á hlut ríkisins í Klakka árið 2016 sem fór fram í síðustu viku.
Arnar Þór óskaði eftir því að Steinar Þór Guðgeirsson viki sem lögmaður íslenska ríkisins og Lindarhvols í málinu þar sem Steinar væri lykilþáttakandi í söluferlinu á Klakka og lykilvitni í málinu.
Frigus II, sem er er í eigu Sigurðar Valtýssonar, og Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, kenndir við Bakkavör, stefndi Lindarhvoli og íslenska ríkinu í september árið 2020 og fer fram á 651 milljón króna í bætur þar sem það telur að tilboði hafi verið tekið sem ekki uppfyllt skilyrði útboðsins og að því tilboðinu hafi verið breytt eftir á.
Réttarspjöll hafi þegar orðið
Lindarhvoll var félag sem stofnað af fjármálaráðuneytinu snemma á árinu 2016 til að koma í verð þeim eignum sem ríkissjóði féll í skaut eftir samninga við slitabú föllnu bankanna. Lögmannsstofunni Íslögum, í eigu Steinars Þórs, var falið að halda utan um rekstur Lindarhvols en Steinar Þór var einnig stjórnarmaður í Klakka í söluferli ríkisins á hlutnum í Klakka. Forsvarsmenn Frigusar II hafa m.a. gert athugasemd við að Steinar Þór hafi lagt til við stjórn hvaða tilboðum var tekið í hlutinn í Klakka þar sem tvö af þremur tilboðum tengdust aðilum sem þá störfuðu fyrir Klakka.
„Mér myndi aldrei detta í hug að taka að mér mál með svona mikla nástöðu við atvik,” sagði Arnar Þór fyrir dómi. Það hefði legið fyrir frá upphafi að Steinar Þór væri lykilvitni í málinu. Því væri óheppilegt að vitnið Steinar Þór væri búinn að lesa öll dómsskjöl í málinu og stefnuna sem lögmaður ríkisins. Þegar hefðu orðið réttarspjöll í málinu sem ekki væri hægt að vinda ofan af.
Steinar Þór andmælti málatilbúnaði Arnars og sagði ekkert til sem heitir lykilvitni í lögum. Þá væri það sóknaraðaðili í málinu sem væri að kalla hann til sem vitni. Varnaraðilum væri frjálst að velja sér þann lögmann sem best hentaði málsvörninni.
Tekist á um vitnalistann
Að forminu til snérist fyrirtakan í síðustu viku um endanlegan vitnalista í málinu og með hvaða hætti Steinar Þór væri kallaður til sem vitni sem lögmaður varnaraðila.
Steinar Þór andmælti meðal annars veru Sigurðar Þórðarson, setts ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols á vitnalistanum. Steinar Þór vísaði til ákvæðis laga um meðferð einkamála þar sem fram kemur að vitni sé „óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um [...] atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt.“
Arnar Þór furðaði sig á því að fyrst nú væri gerð athugasemd við að Sigurður Þórðarson myndi bera vitni í málinu þar sem það hefði legið fyrir í tvö ár að Sigurður yrði kallaður til sem vitni. Arnar benti jafnframt á að bæði væri Sigurður að bera vitni af fúsum og frjálsum vilja og yrði ekki spurður út í atriði sem honum væri óheimilt að tjá sig um.
„Betra að það sé lengra á milli manna“
Arnar Þór sagðist gera áskilnað um að Steinar Þór yrði beittur réttarfarssekt í málinu fyrir að hafa beitt óþörfum drætti á málinu að ósekju og yrði gert að greiða persónulega málskostnað sem Steinar Þór andmælti harðlega.
Til stóð að aðalmeðferð færi fram í máli Frigusar og Lindarhvols í byrjun nóvembermánaðar en því hefur verið frestað fram yfir áramót og fer aðalmeðferðin þá að líkindunum fram í aðalsal Héraðsdóms Reykjavíkur sem dómara í málinu leist ágætlega á. „Mér sýnist þetta mál vera að stefna í þá átt að það sé betra að það sé lengra á milli manna,” sagði dómari í málinu enda var lögmönnum nokkuð heitt í hamsi.
Þá tók dómari málsins einnig undir með Arnar að óheppilegt væri hve málið hefði dregist. „Ég er sammála lögmanni stefnanda að drættir í þessu máli eru komin umfram það sem gott er,” sagði dómarinn.
Forsætisnefnd hugðist afhenda greinargerð Sigurðar fyrir hálfu ári
Sigurður Þórðarson var settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols. Hann skilaði af sér greinargerð árið 2018 um Lindarhvol sem var mun gagnrýnni á störf félagsins en endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol sem kom út árið 2020. Viðskiptablaðið hefur áður sagt frá því að Sigurður hafi talið hlut ríkisins í Klakka um tvöfalt verðmætari en söluverðið sem ríkið fékk fyrir hlutinn. Greingargerð Sigurðar hefur ekki enn verið gerð opinber en Sigurður Þórðarson taldi sjálfur þegar hann lauk vinnu sinni árið 2018 að hún yrði fljótlega opinberuð.
Viðskiptablaðið óskaði eftir því sumarið 2020 að fá greinargerðina afhenta frá forsætisnefnd Alþingis. Því var hafnað en málið var endurupptekið í byrjun árs 2021 og hefur nefndin því haft endurupptökuna til meðferðar í eitt og hálft ár án niðurstöðu. Forsætisnefnd hugðist afhenda greinargerðina í apríl eftir að hafa fengið lögfræðiálit sem studdi afhendingu hennar en frestaði því í lok aprílmánaðar.
Viðskiptablaðið sagði frá því í maí að stjórn Lindarhvols og starfsmenn fjármálaráðuneytisins hefðu átt í bréfaskriftum við forsætisnefndina í á annað ár þar sem því var andmælt að Viðskiptablaðið fengi greinargerðina sem kæmi þar með fyrir sjónir almennings.