SpaceX, eldflauga- og gervihnattafyrirtæki Elon Musk, var metið á 350 milljarða dala í nýrri söluumferð ákveðinna starfsmanna. SpaceX er þar með orðið verðmætasta sprotafyrirtæki heims í einkaeigu, að því er segir í frétt Bloomberg.
SpaceX og tilteknir hluthafar þess munu kaupa hlutabréf að andvirði 1,25 milljarða dala á genginu 185 dalir á hlut. Það samsvarar 65% hækkun á hlutabréfaverði félagsins frá því að tilteknir starfsmenn seldu hlutabréf á genginu 112 dali á hlut í september síðastliðnum.
SpaceX hafði lagt til um miðjan nóvembermánuð að gengið í nýjustu viðskiptunum yrði í kringum 125 dollarar sem hefði gefið fyrirtækinu verðmat upp á ríflega 250 milljarða dala. Vegna mikillar eftirspurnar fjárfesta hækkaði verðmatið um hundrað milljarða dala.
Í umfjöllun FT segir að SpaceX sé þar með orðið verðmætara en ByteDance, móðurfélag TikTok, sem var metið á 300 milljarða dala í endurkaupaáætlun í síðasta mánuði.