Samanlögð velta með bréf Marels á síðustu tíu viðskiptadögum er um 14,4 milljarðar króna en líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá eru erlendir sjóðir að kaupa bréf í félaginu vegna gengismunar á Marel og John Bean Technologies.
Líkt og kunnugt er hefur JBT lagt fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Marels en kaupverðið verður greitt með 35% reiðufé og 65% hlutabréfa í JBT.
Fast viðmiðunargengi á hlutum JBT í viðskiptunum er 96,25 Bandaríkjadalir á hlut en gengi JBT stendur í 121,6 dölum þegar þetta er skrifað.
Samkvæmt sérfræðingum á verðbréfamörkuðum eru sjóðirnir að skortselja JBT en kaupa jafn mikið á móti í Marel til að festa inn hagnað út frá mismuninum þegar tilboðið gengur í gegn.
Hlutabréfaverð Marels hefur hækkað um tæp 6% í nóvembermánuði en dagslokagengi félagsins var 612 krónur í dag eftir 1,4 milljarða króna viðskipti.
Í yfirtökutilboðinu frá JBT er fast skiptigengi krónu og evru 149,5 krónur en miðað við það fást greiddar 538 krónur á hlut í Ma
Hins vegar verður greitt fyrir hlutina í evrum og ef hluthafi ákveður að fá greitt einungis í reiðufé fær hann 3,6 evrur á hlut sem samsvarar 526 krónum ef hluthafinn skiptir reiðufénu í krónur miðað við gengi dagsins.
Hluthöfum sem hugnast því ekki að eiga hluti í sameinuðu félagi JBT og Marel geta því fengið meira fyrir hlut sinn með því að selja hann á markaði en að þiggja tilboðið.