Samkvæmt árlegri greiningu danska viðskiptamiðilsins Børsen voru 3011 fyrirtæki í Danmörku sem telja má til svokallaðra gasella en um er að ræða fyrirtæki sem hafa tvöfaldað veltu eða hagnað á einungis fjórum fjárhagsárum.
Slanguryrðið gasella á rætur sínar að rekja til hagfræðirannsóknar David Birch frá árinu 1987 er hann sýndi fram á að vaxtafyrirtæki væru megindrifkraftur nýrra starfa í Bandaríkjunum.
Samkvæmt rannsókn Birch voru svokallaðar gasellur 4% allra fyrirtækja í Bandaríkjunum en báru ábyrgð á 70% af nýjum störfum sem sköpuðust í hagkerfinu.
Børsen hefur tekið saman fjölda þessara vaxtafyrirtækja árlega frá árinu 1995 og hafa fyrirtækin aldrei verið fleiri en í ár. Í fyrra voru 2781 vaxtafyrirtæki sem náðu að vera skilgreind sem gasellur og höfðu þá aldrei verið fleiri.
Fjölbreytileiki fyrirtækjanna hefur einnig aldrei verið meiri. Martin Senderovitz, sem hefur rannsakað vaxta- og sprotafyrirtæki í meira en áratug, segir að fjölbreytileikinn bendi til þess að til þess að verða gasella þurfi ekki endilega að hitta á réttan geira á réttum tíma.
Á lista Børsen var að finna fyrirtæki sem fjarlægir hár með leysigeisla, tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í varnarmálum, vinnupallaframleiðanda og fataverslanir svo dæmi séu tekin.
„Sögulega hafa gasellur komið úr öllum áttum en það er áhugavert að það er ekki einn geiri sem er að drífa áfram vöxtinn. Þetta eru fyrirtæki sem eru að vaxa umfram þann iðnað sem þau starfa í, sem er hrífandi,“ segir Senderovitz.
Að mati Børsen er magnað að sjá fjölda vaxtafyrirtækja sem hafa náð árangri síðastliðin fjögur ár þar sem nóg hefur verið um að vera í efnahagslífinu. Kórónuveiran, verðbólga, truflanir í aðfangakeðjum og innrás Rússa í Úkraínu.
„Gasellur eru rekin af fólki sem kann að setja skýr markmið, þrátt fyrir að þá séu áskoranir í rekstrinum. Erfiðleikatímar eru aldrei auðveldir, þetta snýst um hvernig er tekist á við þá og hvernig er hægt að snúa rekstrinum við þannig það sé hægt að skapa tækifæri að nýju. Það er frumkvöðlaorkan sem leyfir þessum fyrirtækjum að breyta áskorunum í tækifæri,“ segir Senderovitz.