Formannsskipti verða í Samfylkingunni í haust þar sem Logi Einarsson, langlífasti formaður flokksins, mun láta af störfum.
Samfylkingin var upphaflega stofnuð sem breiðfylking vinstri manna og átti að fanga fylgi Evrópusinnaðra hægri krata sem og þeirra sem eru lengra til vinstri í tilverunni. Það skilaði sér í 25-30% fylgi fyrstu árin eftir stofnun. Síðan hefur flokkurinn færst sífellt lengra til vinstri og hefur nú fjórar kosningar í röð dansað í kringum 10% fylgi.
Augljóst dæmi um hvernig flokkurinn hefur færst til vinstri er popúlískt tal Oddnýjar Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra og formanns flokksins, síðustu daga fyrir auknum ríkisrekstri.
Oddný vill nú að lögfest verði heimild til að þjóðnýta Mílu. Þannig segir Oddný það hafa verið reginmistök hjá ríkinu að selja Mílu með Símanum árið 2005. Sú hugsun hefur vart verið hugsuð til enda. Söluandvirði Símans með Mílu var 67 milljarðar króna árið 2005, sem er um 150 milljarðar að núvirði. Það samsvarar um tvöföldu núverandi markaðsvirði Símans. Féð sem ríkissjóður fékk við Símasöluna var nýtt til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ríkið hefði varla verið betur statt skuldsettara í bankahruninu með Mílu í fanginu og að líkindum þurft að ganga enn lengra í niðurskurði og með enn minna svigrúm til fjárfestinga í fjarskiptum og öðrum innviðum.
Telur einhver í raun og veru að ríkið væri heppilegri eigandi að fjarskiptakerfinu? Notendur ríkisrekinna innviða á borð við hinsókláraða íslenska þjóðvegakerfis eða dreifikerfis raforkunnar ættu að geta svarað þeirri spurningu auðveldlega.
Míla starfar vissulega á fákeppnismarkaði. En í stað þess að ríkið reki fyrirtæki á borð við Mílu hefur verið farin sú leið að eftirlitsstofnanir á borð við Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlitið hafa eftirlit með mörkuðum félagsins. Þannig hefur Míla ekki sjálfdæmi um starfhætti sína heldur þarf að starfa með blessun eftirlitsaðila. Þetta veit Oddný auðvitað.
Niðurstaðan af þessu kerfi hefur verið að verð á fjarskiptaþjónustu er sá liður vísitölunnar sem lækkað hefur mest á undanförnum árum og þannig haldið aftur af verðbólgu.
Oddný gagnrýndi einnig í vikunni ummæli Björns Zoëga, nýskipaðs stjórnarformanns Landspítalans, um að hugsanlega þyrfti að fækka starfsfólki á spítalanum í stoðdeildum sem ekki koma að þjónustu við sjúklinga með einum eða öðrum hætti. Tilhneigingin á spítalanum hefði verið að fjölgað hafi í þeim hópi umfram þá sem sinna sjúklingum.
Björn, sem er bæði fyrrverandi forstjóri Landspítalans og Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, þótti ná eftirtektarverðum árangri í að snúa við rekstri sænska spítalans og um leið bæta þjónustuna. Oddný telur sig hins vegar í betri aðstöðu til að þekkja inn á innviði Landspítalans og hvernig mönnun hans sé best háttað.
Ein mesta áskorun næstu ára og áratuga er að byggja upp heilbrigðiskerfið sem sífellt mun mæða meira á með auknu langlífi landsmanna. Björn segir eitt helsta vandamál Landspítalans sem og spítala víða erlendis vera skort á heilbrigðisstarfsfólki. Á sama tíma hefur um árabil fjölda áhugasamra nemenda verið vísað frá námi í heilbrigðistengdum greinum á borð við læknisfræði og hjúkrunarfræði af hinu ríkisrekna háskólakerfi.
Ljóst er að hugsa þarf út fyrir kassann og nýta fjölbreyttar lausnir til að takast á við áskoranir í heilbrigðiskerfinu til næstu ára og áratuga. Það verður ekki leyst með rörsýn á ríkisrekstur.
Í umræðu um efnahagsmál hefur Kristrún Frostadóttir verið fyrirferðamest hjá flokknum og þykir líkleg til að taka við af Loga Einarssyni sem formaður í haust. Í Covid-faraldrinum boðuðu Kristrún og samflokksmenn hennar að ríkið ætti að bæta í hallarekstur sinn, sem þó nam lengst af um hálfum milljarði króna á dag, til að vinna bug á atvinnuleysi.
Nú hefur atvinnulífið tekið við sér og atvinnuleysi lækkað hraðar en spár gerðu ráð fyrir og stendur nú í 3,3%.Helsta áhyggjuefnið er verðbólgan sem stendur nú í 9,9%. Hefði aukinn hallarekstur ríkissjóðs bætt úr þeirri stöðu?
Einstrengingsleg trú á aukinn ríkisrekstur og popúlískar yfirlýsingar mun ekki leysa úr neinu þeirra atriða sem hér hafa verið nefnd. Nýs formanns bíður því vandasamt verk ætli hann ekki að hrista af sér enn fleiri kjósendur.