„It‘s the economy stupid.“ Kosningastjórinn James Carville lét þau ummæli falla í baráttu Bills Clintons árið 1992 og gekk út frá því að almenningur léti fjárhaginn ráða þegar gengið væri að kjörkössunum. Clinton sigraði með óvæntum og eftirminnilegum hætti, þrátt fyrir að Bush hefði mælst árið áður með 90% stuðning bandarísku þjóðarinnar eftir að hafa hrakið íraska herinn frá Kúveit.

Vel má vera að þessi tilgáta skýri sigur Donalds Trumps. Svartsýni gætti meðal kjósenda í efnahagsmálum og sýndu kannanir að það réði einna mestu um hvernig atkvæði féllu, ekki síst í sveifluríkjunum. Gráglettnin er þó sú, að Bandaríkin hafa jafnað sig hraðar en önnur vestræn ríki eftir Covid, verðbólga lækkað, stýrivextir farið niður og atvinnuleysi ekki verið lægra í rúma hálfa öld.

En Bandaríkjamenn eiga ekki að venjast verðbólgu og það slær þá illa þegar bensínlítrinn hækkar.

Hér á landi varð sú stefna einnig ofan á að styðja við atvinnulífið þegar fótunum var steypt undan rekstri fyrirtækja í heimsfaraldrinum. Það kallaði á nánast fordæmalausa ríkisstyrki – og allir þessir fjármunir sem dælt var út í hagkerfið kynntu svo undir verðbólgu. Flestir töldu það þó skynsamlega ráðstöfun, enda atvinnulífið fljótt að taka við sér þegar aftur sá til sólar.

Þrátt fyrir að öll merki séu um sterka stöðu íslensks þjóðarbús, snarpa viðspyrnu ferðaþjónustunnar, lága skuldsetningu í samanburði við aðrar þjóðir, hríðlækkandi verðbólgu, stýrivexti í lækkunarferli og vaxandi kaupmátt, þá virðast Íslendingar svartsýnir á stöðu efnahagsmála. Gildir þá einu, þó að viðspyrnan hafi orðið mun hraðari en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir.

Fyrirséð var að heimsfaraldur og hamfarir í Grindavík, auk stríðs og straums flóttamanna, hagvaxtarsveiflna og launaskriðs, hefði áhrif á lítið þjóðfélag – og þar með á afkomu heimila. En spurning vaknar, hvort ekki megi allt eins þakka þann árangur sem náðst hefur? Eða hefðu Íslendingar líka hallað sér að Trump ef hann hefði verið í framboði hér?

Það er þetta með glasið, hvort það er hálffullt eða hálftómt.