Air France tilkynnti í síðasta mánuði að flugfélagið myndi hætta að bjóða upp á gjaldfrjálsar máltíðir í almenna farrýminu um borð í styttri flugferðum sínum. Þess í stað verður hægt að kaupa mat um borð í flugvélum, eins og þekkist til að mynda hjá Icelandair.

Talsmaður flugfélagsins segir að breytingin væri gerð í takt við markaðsþróun en bætir við að farþegar geti enn fengið ókeypis drykki, þar á meðal te, kaffi og vatn ásamt kexköku.

Breytingarnar verða fyrst innleiddar í flugferðum Air France frá París til Helsinki og Lissabon og eru þær hugsaðar sem tilraunaverkefni.

Góðu fréttirnar eru hins vegar að flugfélagið mun bæta við fleiri valkostum þegar kemur að heitum réttum, sem þýðir að farþegar geta keypt sér það sem þeir raunverulega vilja frekar en að þurfa að sætta sig við það sem er í boði.

Slíkar breytingar hafa átt sér stað meðal annarra flugfélaga en ástæðurnar eru sagðar vera sparnaður og einnig spornun við matarsóun. Árið 2023 sagði IATA að 1,14 milljónum tonna af mat væri sóað á ári hverju frá farþegum sem annaðhvort leifuðu eða vildu ekki matinn sem gefinn var.