Baldvin Þorsteinsson, aðaleigandi Öldu Seafood, og Þóra Kristín Pálsdóttir hafa fest kaup á einbýlishúsi að Selbraut 5 á Seltjarnarnesi. Kaupsamningur hefur verið dagbókarfærður í fasteignaskrá HMS en samningurinn er ekki enn aðgengilegur og því engar upplýsingar um kaupverð enn sem komið er.
Baldvin og Þóra eru í dag með skráð lögheimili í Noregi.
Seljendur eru Haraldur Þórðarson, forstjóri Skaga, og Ragnhildur Ágústsdóttir listamaður.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir mánuði síðan var óskað tilboða í húsið, sem er 302 fermetrar að stærð, en gildandi fasteignamat hússins nemur 179,5 milljónum króna. Haraldur og Ragnhildur keyptu húsið árið 2015 fyrir 95 milljónir króna og hefur það verið endurnýjað samkvæmt lýsingu fasteignasölunnar sem sá um söluna.
Haraldur og Ragnhildur festu fyrr á árinu kaup á 467 fermetra einbýlishúsi að Blikanesi 21 á Arnarnesi í Garðabæ. Kaupverð hússins nam 335 milljónum króna.
Æskuheimili Jóns Gunnars í Bankasýslunni
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í ofangreindri frétt var Jón Þorsteinsson alþingismaður Alþýðuflokksins fyrsti eigandinn að húsinu. Hann var faðir Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra Bankasýslunnar og var húsið því æskuheimili hans frá átta ára aldri.