Héraðsdómstóll í Peking hefur dæmt Qi Moudao í fimm ára fangelsi fyrir að selja falsaðar vínflöskur á kínverska markaðnum. Qi áfrýjaði ekki dómnum en hann þarf einnig að greiða rúmlega fimm milljónir króna í sekt.
Lögreglan gerði húsleit hjá manninum og fundu meðal annars 33 flöskur af víni sem voru merktar með fölsuðum Petrus, Chateau Lafite Rothschild eða Pomerol-límmiðum. Qi var einnig með 29 flöskur merktar Carruades de Lafite 2017.
Yfirvöld voru fljót að komast að því að um fölsuð vín væri að ræða en Qi hafði unnið með tveimur öðrum svikurum, Zhou Moubin og Qi Mouxi. Ein flaska af Petrus selst fyrir meira en 50.000 júan, eða tæplega 960 þúsund krónur, í Kína en kostnaðurinn við að framleiða fölsuðu vínin væri mjög lár.
Dómstóllinn ákvað að birta upplýsingar um málið í tilefni af höfundarréttarvikunni í Kína sem fer nú fram en með henni vilja yfirvöld auka vitund neytenda um hættuna af því að kaupa virtar vörur frá óstaðfestum söluaðilum.
Kínverska lögreglan hefur aukið viðleitni sína í baráttunni gegn fölsuðum vínum en í janúar í fyrra fann lögreglan í Fujian-héraði 40 þúsund falsaðar vínflöskur, þar á meðal Lafite og Penfolds, og var götuvirði þeirra í kringum 21 milljarður króna.