Nýjasta æði meðal ungs fólks sem skellir saman á barinn er að panta sér einn svellkaldan Guinness og drekka niður að G-stafnum á glasinu í fyrsta sopanum. Æðið var gert vinsælt á samfélagsmiðlum og kallast að „splitta-G-ið“.

Æðið hefur gert Guinness gríðarlega vinsælan á börum um allan heim og hefur bjórinn selst upp bæði á börum og í matvöruverslunum.

Á dönsku síðunni Borsen má sjá að Danir hafi einnig tekið þátt í æðinu en Carlsberg, bjórfyrirtækið sem dreifir Guinness í Danmörku, staðfestir að bjórinn hafi einnig verið að seljast upp þar í landi.

„Við höfum upplifað mikla söluaukningu á Guinness sem við höfum ekki séð áður. Miðað við síðasta ár hefur salan aukist um 44% og á börum og veitingastöðum er söluaukningin hátt í 70%. Guinness hefur þá náð sérstaklega til ungs fólks og kvenna,“ segir Pernille Gade Laursen hjá Carlsberg.

Þróunin hefur einnig náð yfir alla Evrópu og segir framleiðandinn á Írlandi að hann eigi í erfiðleikum með að anna eftirspurninni á heimsvísu. „Við erum að vinna hörðum höndum að því að tryggja stöðugt framboð, en við búumst við færri afhendingum frá og með byrjun apríl,“ bætir Pernille við.