Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur, lét sig ekki vanta á Götubitahátíðinni sem fór fram síðustu helgi í Hljómskálagarðinum í Reykjavík. Hann sigraði keppnina í fyrra og mætti aftur í ár með bæði vagn og tjald til að gefa gestum hátíðarinnar að borða.
Þegar hátíðin byrjaði var hann nýkominn úr hringferð um landið en veitingastaðurinn hans, sem opnaði síðasta vetur, er lokaður frá 1. júlí og fram að verslunarmannahelgi á meðan hann keyrir um landið með vagninn í leit að nýjum viðskiptavinum.
„Ég er það heppinn að fá að vinna við ástríðu mína, sem er að veiða og elda góðan mat. Þetta er náttúrulega gríðarleg vinna þegar maður gerir þetta allt sjálfur og þeir sem fylgja mér á Snapchat vita að ég er að þessu allan sólarhringinn,“ segir Silli.
Aðspurður um það hvort hann hyggist færa út kvíarnar vegna velgengni undanfarinna missera þá segir Silli að hann og konan hans séu aðeins eitt stykki. „Ég hef alltaf getað tekið mér 100 veislur, en Kári Stefánsson er ekki enn búinn að klóna mig. Ef það gerist þá kannski opna ég fleiri staði.“
Hann segir að góðar viðtökur frá viðskiptavinum og þá sérstaklega nýjum viðskiptavinum sé ein besta tilfinning sem til er. Það sé fátt betra en að sjá til að mynda um risabrúðkaup fyrir hjón sem hafa aldrei hitt hann. Svo er allt upp á tíu, maturinn æðislegur og þau eru svo ánægð og þakklát.
„Ég fæ stundum fólk á sjötugsaldri sem fær sér gæsahamborgara hjá mér og veit ekki við hverju það á að búast. Svo er það bara slefandi og segir að þetta sé það besta sem það hafi smakkað á ævinni.“
Silli bauð upp á nýjung á Götubitahátíðinni í ár sem voru nauta-tacos og urðu þau til í raun bara fyrir tilviljun. Hann notaðist einnig við nauta chuck og nauta brisket, sem eru dýrustu vöðvarnir fyrir utan lundina á nautinu.
„Ég var að brasa að gera eitthvað nautadót og svo sá ég eitthvað hnetusmjör uppi í hillu og setti það út í. Blandaði svo kanil og appelsínubragði og einhverjar 20 kryddtegundir. Svo þegar þetta kom úr ofninum þá var þetta bara sturlað. Oft gerist þetta bara svona þegar maður er að gera eitthvað nýtt og þá verða til hlutir sem eru komnir til að vera.“