Sir Tim Martin, stofnandi og stjórnarformaður JD Wetherspoon í Bretlandi, hefur gagnrýnt Diageo, framleiðanda Guinness, vegna skorts á bjórnum í landinu í aðdraganda jólanna. Keðjan er jafnframt stærsti söluaðili Guinness í heiminum og selur 25 milljónir lítra á ári.

JD Wetherspoon, sem er með 800 krár um Bretlandseyjar, hefur átt í miklum erfiðleikum með að nálgast vörumerkið og segir Martin að hann vilji eiga hörð orð við Diageo.

Vinsældir Guinness hafa stóraukist undanfarna 18 mánuði en eftirspurnin hefur aðallega komið frá yngra fólki og konum. Samfélagsmiðlar og vaxandi vinsældir á hinum óáfenga Guinness 0.0 hafa einnig ýtt undir eftirspurn.

Martin bætir þó við að Guinness hafi verið mjög áreiðanlegur birgir fyrir krárnar í 45 ár og getur hann ekki munað eftir því að birgðir hafi klárast áður. JD Wetherspoons þarf engu að síður að birgja sig upp af öðrum tegundum í ljósi aðstæðna.