Staðsett í földu húsasundi í taívönsku borginni Taichung má finna afar sérstaka ísbúð en þessi ísbúð er einstök að því leytinu til að þetta er eina ísbúðin í heiminum til að hljóta Michelin stjörnu.

Þeir sem leggja sér leið til Taívan til að heimsækja þennan veitingastað geta svo sannarlega undirbúið sig fyrir stórkostlega matarupplifun.

Gestir ísbúðarinnar, sem ber nafnið Minimal, mæta ekki á staðinn til að fá sér dæmigerðan fimm til sjö rétta matseðil, þess í stað er farið beint í eftirréttina og mismunandi ístegundir sem eru bornar fram við mínus 180°C til 196°C.

Allt þetta er hluti af draumi yfirkokksins, Arvin Wan, en hann vill búa til ís sem er meira en bara ís. Hann segir að flestir borði ís vegna bragðsins en Wan vill að gestir hans upplifi frumefnið sjálft.

Wan er ættaður frá Taichung og hefur elskað ís alveg frá því hann var barn. Hann var alinn upp af einstæðri móður og byrjaði að vinna á veitingastöðum þar sem hann vann langa vinnudaga.

Þegar móðir hans lést úr krabbameini áttaði hann sig á því að hann vildi ekki fórna ævi sinni í svona krefjandi vinnuumhverfi og fór frekar að vinna í ísbúð.

Þar tók hann eftir því að flestir frosnir eftirréttir þurfa að fylgja mjög ströngum reglum og verklagsreglum sem veittu lítið pláss fyrir sköpunargáfu. Wan sá hins vegar mörg tækifæri í þessu og fékk þá hugmynd að breyta því hvernig við sjáum ís.