Landbúnaðarráðuneyti Frakklands hefur tilkynnt áætlun sem felst í því að greiða vínframleiðendum fyrir að fjarlægja vínviði sína úr rótum. Frakkar eiga rúmlega 800 þúsund hektara af vínekrum og vilja stjórnvöld draga úr offramboði á heimsvísu.
Alþjóðleg vínframleiðsla var rúmlega 10% meiri en eftirspurn árið 2023 samkvæmt tölum frá Alþjóðlegu vínstofnuninni (OIV).
Þróunin hefur stuðlað að verulegum afgangi af víni sem hefur lækkað verð á víni og ógnar nú starfsumhverfi franskra framleiðenda.
Samkvæmt nýju tillögunni gætu vínframleiðendur fengið allt að fjögur þúsund evrur fyrir hvern hektara sem þeir leyfa stjórnvöldum að uppræta. Ef þeir samþykkja að láta fjarlægja viðina verður þeim eins bannað að gróðursetja vínvið á landi sínu fyrr en í fyrsta lagi árið 2029.
Ríkisstjórn Frakklands hefur eins tilkynnt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um áætlunina, sem gæti kostað í kringum 120 milljónir evra. Aðgerðin myndi hugsanlega gera stjórnvöldum kleift að draga úr 30 þúsund hekturum í framleiðslu.