Líklega er fátt jafn óumdeilt í dag eins og tollar, tjah nema ef vera skyldu tollkvótar. Líklega hefði fáum getað dottið í hug að appelsínuguli maðurinn í hvíta húsinu gæti sameinað alla vinstri menn í að fordæma viðskiptahöft og tollkvóta en hvort fordæmingin nái í eigin sauðahús á svo eftir að koma í ljós.

Ostar á Íslandi eru dæmi um hluti sem ekki eru, þjónustan sem ekki er veitt, vörurnar sem ekki standa til boða, upplifunin sem aldrei er.  Í frjálsum samfélögum um allan heim eru til dæmis starfræktar sælkerabúðir sem selja osta og annan varning, jafnvel vín með sem skýtur auka stoðum undir reksturinn. Á Íslandi er engin ostabúð starfandi og engin veitingastaður býður osta á matseðli. Ástæðan er að íslenskir ostar standast ekki kröfur og til að neyða neytendur til að versla ómetið eru erlendir ostar tollaðir þannig að engin getur þá keypt. Með þessu fyrirkomulagi telja stjórnmálamenn að hægt sé að slaka á gæðakröfum og skapa embættismönnum tilvistargrunn til að stýra daglegu lífi fólks. Neytendur eru því fórnarlömb aðstæðna sem þeir reyndar kjósa yfir sig á fjögurra ára fresti.

Fyrir íslenska þolendur verslunarofbeldis á ferðalögum erlendis má benda á einfalda frelsissmugu þar sem allar ostabúðir eins og Quatrehomme í Pigale hverfinu í París, bjóða upp á innpökkun í lofttæmdar umbúðir sem auðvelt er að ferðast með í farangri eins og hvert annað fíkniefni. Hér er t.d. hægt að fá Brillat Savarin (borið fram bríe savaran) , Comté og Epoisses osta sem að öðrum ólöstuðum eru krúnudjásn franskrar ostagerðar. Sömuleiðis fæst hér smjör unnið úr ógerilsneyddri hrámjólk, saltað og ósaltað.

Ofurtollar halda gæða ostum frá íslenskum neytendum.
Ofurtollar halda gæða ostum frá íslenskum neytendum.

Í sömu götu er svo fyrirtaks kjötkaupmaður sem selur vel hangið, fitusprengt og óhefndar-tollað kjöt sem, sömuleiðis fer vel í tösku í loftþéttum umbúðum auk besta kjúklings í heimi frá Bresse.

Í sömu götu er svo fyrirtaks kjötkaupmaður sem selur vel hangið, fitusprengt og óhefndar-tollað kjöt, auk besta kjúklings í heimi frá Bresse.
Í sömu götu er svo fyrirtaks kjötkaupmaður sem selur vel hangið, fitusprengt og óhefndar-tollað kjöt, auk besta kjúklings í heimi frá Bresse.

Gata fórnarlamba

Báðar þessar verslanir (ásamt öðrum) standa viðeigandi við götuna Rue des Martyrs eða götu fórnarlamba sem upphaflega lá að Montmartre klaustrinu hvar heilagur Denis var hálshöggvinn fyrir trúvillu. Denis, höfðinu styttri lét þó höfuðleysið ekki aftra sér (frekar en íslenskir neytendur) heldur gekk götuna á enda með höfuðið undir hendi sem enn er óskráð met í frjálsri göngu án höfuðs. Atburðurinn tryggði honum dýrlinga stöðu og eilíft líf í hugum frakka sem kenna þjóðarleikvanginn við hann auk þess að nefna eitt af bestu víngerðarþorpum Burgundy ,,Morey St. Denis” hvar stytta af methafanum er á aðaltorgi þorpsins.

Af gististöðum í hverfinu (eða nálægt) sem undirritaður hefur nýtt sér oftar en einu sinni, mætti nefna Hoxton og Grand Pigale Experimental. Besti veitingastaður hverfisins er svo Bon Georges, en þar þarf að panta með góðum fyrirvara. Staðurinn er klassískt bistro, engin hreiður, turnar eða beð, bara fyrsta flokks hráefni. Vínlistinn er sver og tilgerðarleysið er bætt upp með vínþjónum með þekkingu.

Heilagur Denis, methafi í frjálsri göngu án höfuðs.
Heilagur Denis, methafi í frjálsri göngu án höfuðs.

Eykur langlífi

Fyrir utan nautnina í að borða góða osta má bæta við niðurstöðum nýlegrar könnunar tímaritsins Economist. Þar kemur fram að ostar í góðum félagsskap séu taldir auka líkur á langlífi.

Umfjöllunin birtist fyrst í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.