Fyrrum hús grínistans og leikkonunnar Rosie O‘Donnell, sem staðsett er í Miami, er nú til sölu á 54 milljónir dala. Húsið er í raun lúxusvilla sem er 1020 fermetrar að stærð og býður upp á átta svefnherbergi.

Rosie O‘Donnell keypti húsið árið 1999 fyrir 6,75 milljónir dala en seldi það svo árið 2003 á 16,5 milljónir dala til hjónanna Dr. David Frankel og Lindu Frankel, fyrrum ritstjóra tískublaðsins Vogue og systur fréttakonunnar Diane Sawyer.

Linda lést svo árið 2023 og maðurinn hennar lést í mars á þessu ári. Sonur þeirra, Greg Frankel, býr nú í húsinu ásamt fjölskyldu sinni meðan verið er að selja það.

Húsið var upphaflega byggt árið 1920 og áður en O‘Donnell keypti húsið bjó þar sértrúarsöfnuður sem kallaði sig Ethiopian Zion Coptic Church. Söfnuðurinn var þekktur fyrir að reykja gras og á áttunda áratugnum bárust kvartanir frá nágrönnum vegna lyktarinnar.

Við anddyri heimilisins situr gríðarstórt tré og inni á heimilinu má finna bar, þakverönd og verkstæði. Í bakgarðinum eru einnig nokkur mangótré sem voru gróðursett af Lindu og að sögn Greg er svæðið mjög notalegt á vorin.