Argentínska knattspyrnugoðsögnin Lionel Messi hefur tilkynnt nýja víntegund sem mun fást í takmörkuðu magni. Vínið fæst í bæði Syrah og Primitivo og ber nafnið GOAT 10, til að fagna stöðu hans sem besti knattspyrnumaður allra tíma.

Vínflöskurnar verða seldar á heimasíðu MM Winemaker á 60 evrur, eða um 8.700 krónur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Messi hefur unnið með MM Winemaker til að framleiða eigið vín en hann hefur áður boðið upp á safnflöskur sem samanstanda af Pinot Grigio, Nero d‘Avola, Grillo, Chardonnay, Primitivo, Syrah, Cabernet Sauvignon og Merlot.

Fyrrum liðsfélagi hans í Barcelona, Andrés Iniesta, er einnig í fararbroddi vínframleiðslu í gegnum fjölskyldu sína á Spáni en vínekra þeirra kallast Bodega Iniesta. Þá hafa David Silva, Andrea Pirlo, Gianluigi Buffon, Ronaldhinho, Roberto Carlos, Andrea Barzagli og Franz Beckenbauer einnig framleitt sínar eigin víntegundir.