José Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea, hefur sett eigin rauðvínstegund á markað en vínið ber heitið The Special One en Mourinho lýsti sjálfum sér sem The Special One eftir að hafa verið ráðinn til Chelsea árið 2004.
Á þeim tíma var portúgalski þjálfarinn nýbúinn að færa Porto meistaratitil og hét því að hann myndi gera slíkt hið sama með sínu nýja liði.
Hver flaska af rauðvíni Mourinho, sem er blanda af Touriga Nacional, Touriga Franca, Tinta Barroca og Sousao, kostar 144 evrur, eða um 21 þúsund krónur.
„Sem einstaklingur sem metur nákvæmni, gæði og afburðahæfileika í öllu því sem ég geri, er ég stoltur að kynna mitt eigið vín. Vínið er handvalið frá einu af uppáhaldssvæðum mínum í Portúgal en vínið endurspeglar vínanda heimalands míns og löngun mína til njóta hverrar stundar í lífinu,“ segir Mourinho.
Chelsea rak Mourinho á endanum eftir lélegan árangur en hann naut hins vegar mikillar velgengni hjá Inter Milan og Real Madrid.