Atli Snær matreiðslumeistari og eigandi Komo mun keppa fyrir Íslands hönd á evrópsku götubitaverðlaununum (e. European Street Food Awards), stærstu götubitakeppni í heimi. Hátíðin verður haldin í Saarbrucken í Þýskalandi dagana 4.-6. október nk.

Komo mun keppa við 18 aðrar Evrópuþjóðir um titilinn Besti Götubitinn í Evrópu.

Atli Snær matreiðslumeistari og eigandi Komo mun keppa fyrir Íslands hönd á evrópsku götubitaverðlaununum (e. European Street Food Awards), stærstu götubitakeppni í heimi. Hátíðin verður haldin í Saarbrucken í Þýskalandi dagana 4.-6. október nk.

Komo mun keppa við 18 aðrar Evrópuþjóðir um titilinn Besti Götubitinn í Evrópu.

Atli hjá Komo hefur unnið til fjölda verðlauna á Götubitahátíðinni hér heima og hefur samtals unnið til níu verðlauna. Í ár sigraði hann í flokkunum um „besti smábitinn“ og „besti grænmetisbitinn“ með thai-melónusalat.

Í fyrra sigraði hann sem „besti smábitinn“ með svokölluðu Korean fried tiger balls, en það eru einmitt réttirnir sem verða á boðstólum á hátíðinni.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að þetta sé í fyrsta sinn sem hann eldar í vagninum erlendis en bíllinn sjálfur fór úr landi á föstudaginn. Atli og hans teymi munu síðan fara út um næstu mánaðamót og þá byrjar ævintýrið.

„Við verðum með svipaðan matseðil og við vorum með á Götubitahátíðinni í sumar. Við erum að fara fjórir út, þannig þetta verður gríðarlega mikið ævintýri. Við erum búin að vera í mánuð að undirbúa þetta.“

Atli vonast eftir góðum viðtökum frá gestum hátíðarinnar en Íslendingar hafa áður fyrr staðið sig mjög vel á hátíðinni. Silli kokkur lenti til að mynda í öðru sæti í keppninni árið 2022 en borgarinn hans var hins vegar valinn sá besti.

„Sonur minn, sem er sjálfur matreiðslumaður og vaktstjóri hjá Fiskfélaginu, kemur með okkur. Þar að auki kemur líka frændi minn, Magnús Örn Friðriksson, sem er yfirkokkur á Skjól á Akureyri. Þannig við verðum þarna feður og frændur.“