Síðastliðin fimmtudag undirrituðu borgarstjórinn í Reykjavík, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, og formaður KSÍ, Eggert Magnússon, samning um uppbyggingu á Laugardalsvelli.

Samningurinn felur í sér endurbyggingu á eldri stúku vallarins, lengingu stúkunnar til norðurs og suðurs og nýbyggingu til vesturs við stúkuna. Þá verður nýtt þak byggt yfir allt mannvirkið. Nýr inngangur á Laugardalsvöll verður í fyrrnefndri nýbyggingu, sem auk þess mun hýsa skrifstofu KSÍ og fræðslusetur. Að framkvæmdum loknum munu verða um 10.000 sæti fyrir áhorfendur á Laugardalsvelli. Verður eldri stúka Laugardalsvallar stækkuð til norðurs og suðurs fyrir allt að 2.600 manns. Einnig verða sett upp ný sæti framan við eldri stúku fyrir allt að 470 manns.

Heildarkostnaður er áætlaður 1.038 milljónir króna. Í samningi Reykjavíkurborgar og Knattspyrnusambands Íslands er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leggi 398 mkr. á næstu þremur árum til viðhalds og endurbóta á eldri mannvirkjum í eigu borgarinnar við völlinn. KSÍ mun ásamt Alþjóða knattspyrnusambandinu FIFA leggja 440 mkr. til byggingar kennslu- og fræðslumiðstöðvar og skrifstofuhúsnæðis fyrir knattspyrnuhreyfinguna á Íslandi. Að auki kemur ríkisvaldið að framkvæmdunum með 200 mkr. framlagi vegna fyrirhugaðrar stækkunar áhorfendastúkunnar.

Aðalinngangurinn flyst

Nýbyggingarnar verða byggðar við eldri byggingu og mynda mannvirkin því eina heild. Aðalinngangur flyst og verður beint fyrir framan hina nýju skrifstofubyggingu, þaðan sem tengingar liggja í stæðin og stúkurnar. Engar breytingar verða á búningsklefum eða annarri aðstöðu tengdri knattspyrnuiðkun. Í Baldurshaga þar sem nú er aðstaða fyrir frjálsíþróttafólk, verður áfram íþróttastarfsemi á næstu árum á vegum Reykjavíkurborgar. Hið endurbætta mannvirki verður í sameign Reykjavíkurborgar og knattspyrnuhreyfingarinnar.

Framkvæmdir munu hefjast að loknum úrslitaleik VISA-bikars karla 24. september næstkomandi. Gert ráð fyrir að aðstaða áhorfenda verði tilbúin strax næsta vor og að framkvæmdum ljúki haustið 2006.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Laugardalnum síðustu ár. Reykjavíkurborg tók í notkun nýja 50m innisundlaug í ársbyrjun og Íþrótta- og sýningarhöllin, sem byggð var við Laugardalshöllina, verður senn opnuð. Athafnasvæði Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hefur verið stækkað og nýbúið er að semja við Ármann og Þrótt um byggingu nýs fimleikahúss í dalnum.

·