Þegar kemur að því að panta sér góða steik myndu fáir kippa sér upp við það að panta steikina medium eða medium rare, eins og sagt er á góðri íslensku. Hins vegar þegar kemur að hamborgurum þá eru Finnar farnir að vara fólk við því að borða þá hráa.
Samkvæmt finnska matvælaeftirlitinu, Ruokavirasto, gæti nautahakk sem eldað er á lægra hitastigi en 71°C borið með sér Shiga-toxín myndandi E. coli (STEC) bakteríum.
Niðurstöður frá eftirlitsstofnuninni leiddu í ljós að ef aðeins 12% af öllum hamborgurum væru eldaðir á miðlungs hita (e. medium), það er að segja 55°C, þá myndu 100 Finnar af hverjum 100 þúsund veikjast á hverju ári.
Ef allir hamborgararnir væru hins vegar eldaðir í gegn þá myndu aðeins þrír af hverjum 100 þúsund veikjast.
Ruokavirasto greindi þó frá því að tilkynnt var um færri en 300 tilfelli af STEC-tegndum veikindum árið 2022. Þar að auki sögðust aðeins 5% Finna sem sýktir voru af E. coli á árunum 2001 til 2020 að þeir hefðu borðað hrátt kjöt áður en einkennin komu fram.
„Við eldum mat að hluta til til að drepa allar þessar skaðlegu bakteríur sem geta gert okkur veik eða jafnvel drepið okkur. Þú þarft að hækka hitastigið í banvænt stig, sem er að minnsta kosti 71°C eða hærra, nógu lengi til að drepa allar bakteríurnar sem lifa í matnum,“ segir Dr. Kimon-Andreas Karatzas, dósent í matvælaörverufræði við háskólann í Reading, við Daily Mail.