SsangYong Rexton er jeppi í eiginlegri merkingu orðsins. Hann er með talsverðri veghæð, byggður á grind og með háu og lágu drifi. Og þannig hefur hann alltaf verið frá því hann kom fyrst á markað 2001. Nú er hann kominn í annarri kynslóð. Útlitið hefur verið uppfært svo um munar og jafnvel í grunnútfærslunni er hann vel búinn frá framleiðanda. Flaggskipið er HLX sem slagar hátt í „fínu merkin“ hvað búnað varðar.

Við prófuðum Rexton í HLX útfærslu á dögunum. Það sem sat eftir þann reynsluakstur er kannski fyrst og fremst það hve mikið fæst fyrir peninginn. Jeppi og jeppi Rexton er svipaður að stærð og Toyota Landcruiser sem og Land Rover Defender. Þeir eru líka allir byggðir á grind með millikassa með háu og lágu drifi og driflæsingu.

Það er ekki mikið framboð lengur af slíkum bílum. Þó má nefna bíla sem nýlega rötuðu hingað, eins og Jeep Wrangler og hinn smáa en knáa Suzuki Jimny. Það sem margir kalla jeppa eru fjórhjóladrifsbílar með sambyggðri yfirbyggingu og undirvagni og án millikassa. Þeir bjóða upp á fólksbílalegri aksturseiginleika í borginni en tapa fyrir vikið akstursgetu utan vega.

Rexton er með sjálfstæða fjöðrun að aftan og þótt hann sé byggður á grind hefur hann merkilega góða jarðtengingu á strætum borgarinnar.

Tímabær kynslóðaskipti

Rexton fer upp um nokkra flokka útlitslega í nýjustu kynslóð. Fyrsta kynslóðin var framleidd, vissulega með andlitslyftingum, í um 16 ár, og því löngu tímabært að kynna til sögunnar nýja kynslóð og það var reyndar gert árið 2017. Rexton er kominn með allt þetta nútímalega; LED ljós að framan og aftan, beygjuljós, 20 tommu álfelgur í dýrustu útfærslum. Fjórir skynjarar eru aftan á bílnum og tveir að framan. Hann skákar kannski ekki evrópsku framleiðendunum í fegurðarsamkeppninni en hann traustlegur, hógvær og virðist búa yfir ágætum smíðagæðum.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .