Nýjustu lausnir Siemens í brunaviðvörunarlausnum voru kynntar og ræddar á ráðstefnu sem Öryggismiðstöðin bauð til í höfuðstöðvum fyrirtækisins að Askalind 1 í gær.

Sérfræðingar frá Siemens héldu erindi og fóru þar yfir helstu nýjungar og þróun í brunaviðvörunarkerfum. Þeir ræddu einnig hvernig nýjasta tækni getur gert uppsetningu og rekstur einfaldari, skilvirkari og öruggari.

„Við fögnum því sérstaklega þegar helstu sérfræðingar landsins mæta til okkar og kynna sér nýjungar á markaðnum. Siemens eru fremstir í heiminum þegar það kemur að lausnum brunaviðvörunarkerfa og eru í dag að kynna margs konar nýjungar. Nýjungar sem auðvelda hönnuðum að hanna brunaviðvörunarkerfin, uppsetningaraðilum að fylgjast með framvindu stærri verkefna og notendum að auka yfirsýn yfir virkni og stöðu kerfa,“ segir Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Öryggismiðstöðinni.

Í tilkynningu segir að góður rómur hafi verið á ráðstefnunni meðal fagaðila sem viðstaddir voru og þótti mörgum hún veita dýrmætt tækifæri til að fræðast og taka þátt í faglegum umræðum við sérfræðinga í greininni.
