Rasmus ehf. hefur undirritað samning við Skýrr um innleiðingu á fjárhags- og mannauðslausn Microsoft Dynamics NAV. Lausnin verður rekin í kerfisleiguhögun hjá Skýrr. Er það gert samkvæmt nýjum samningi við Microsoft, sem ekki hefur áður boðið Dynamics NAV-lausnir í kerfisleiguhögun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Skýrr er Microsoft Gold Certified Partner. Samhliða þessu hefur Rasmus gert þjónustusamning við Skýrr, sem tryggir fyrirtækinu órofa aðgang allan sólarhringinn að sérfræðingum, þjónustuborði og verkbeiðnakerfi segir í tilkynningu.

Að sögn Tómasar Rasmus, framkvæmdastjóra Rasmus ehf., réði það mestu um valið á Microsoft Dynamics NAV í kerfisleiguhögun að lausnin er hagkvæm og sveigjanleg fyrir lítið fyrirtæki.

"Við hjá Rasmus vildum innleiða öfluga fjárhags- og mannauðslausn, en gæta á sama tíma ítrustu hagkvæmni í útgjöldum á sviði upplýsingatækni. Skýrr hefur áratugareynslu af kerfisleigu og uppfyllir strangar kröfur um hagkvæmni, afköst, áreiðanleika, þjónustu og öryggi. Við höfum miklar væntingar til þessa nýja samstarfsaðila okkar og teljum að við séum í góðum höndum hjá Skýrr," segir Tómas.

Microsoft Dynamics NAV ? áður Navision ? er alhliða upplýsingakerfi og viðskiptalausn með einföldu og þjálu notendaviðmóti. Fjöldi staðlaðra kerfishluta, auk sérsmíðaðra lausna sem taka mið af íslenskum aðstæðum og/eða þörfum einstakra atvinnugreina, hefur gert Microsoft Dynamics NAV að einum af vinsælasta viðskiptahugbúnaði á Íslandi og jafnframt að útbreiddustu viðskiptalausn Microsoft. Um 35.000 fyrirtæki í 50 löndum nota þessa lausn segir í tilkynningu.